Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tæp 6.000 hafa kosið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins

05.06.2021 - 15:54
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Rúmlega 5.800 hafa kosið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þar sem tveir ráðherrar berjast um forystusætið. Kosningu lýkur klukkan sex í kvöld en kjörsókn er nú þegar orðin næstum sjötíu prósentum meiri en hún var í síðasta prófkjöri flokksins í Reykjavík árið 2016. Í prófkjörinu þar áður tóku hins vegar um 7.500 manns þátt.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sækjast bæði eftir því að leiða lista flokksins í Reykjavík. Fyrr í vikunni sakaði Guðlaugur framboð Áslaugar um að hafa brotið prófkjörsreglur með því að hafa nýtt sér aðgang að félagaskrá flokksins. Yfirkjörstjórn ákvað að aðhafast ekki vegna málsins og sagði framboðið ekki hafa haft aðgang að kjörskrá vegna prófkjörsins. 

Þingmennirnir Brynjar Níelsson og Sigríður Á. Andersen sækjast eftir öðru sæti á lista í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú fimm þingsæti í Reykjavík.

Jón Karl Ólafsson, formaður fulltrúaráðs flokksins í Reykjavík, segir að prófkjörið hafi gengið vel og býst við að niðurstöður liggi fyrir um kvöldmatarleytið.