Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sameiningartillaga felld í Skagabyggð og á Skagaströnd

sameiningar sveitarfélaga í austur-húnavatnssýslu. Skagabyggð, Skagaströnd, Blönduósbær og Húnavatnshreppur
 Mynd: Geir Ólafsson - RÚV
Ekkert verður úr sameiningu fjögurra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu. Eftir að atkvæði voru talin í Skagabyggð kom í ljós að 29 sögðu nei við sameiningartillögunni en 24 sögðu já. Tillagan var því felld. Alls greiddu 53 atkvæði í Skagabyggð en 70 voru á kjörskrá.

Á vef Húnvetnings segir að sveitarstjórnirnar fjórar hafi lýst því yfir að þær muni ekki nýta sér heimild í sveitarstjórnarlögum til sameiningar þeirra sveitarfélaga þar sem íbúar samþykkja sameiningu. Í yfirlýsingu þeirra segir að hafni íbúar einhvers sveitarfélaganna tillögu um sameiningu í kosningu, munu aðrar sveitarstjórnir ekki taka ákvörðun um sameiningu þeirra sveitarfélaga án þess að hafnar verði nýjar sameiningarviðræður og kosið að nýju.

Yfirgnæfandi meirihluti Blönduósbæjar, eða nærri níu af hverjum tíu kjósendum, var hlynntur sameiningunni, og naumur meirihluti Húnavatnshrepps vildi sameiningu. Íbúar Skagabyggðar og Skagastrandar sögðu hins vegar nei, og þar við stendur.

Fréttin var uppfærð klukkan 23:39.