Rödd Ladda hefur verið hluti af lífi margra barna en hann hefur talsett fjöldann allan af teiknimyndum. Þannig talar hann til að mynda fyrir Andann í Aladdín, Tímon í Konungi ljónanna, asnann í Shrek, drekann í Múlan og Júlla kóng í Madagaskar svo fátt eitt sé nefnt. Eitt stærsta afrek Ladda á sviði talsetningar er þó án efa þegar hann talsetti nær einn síns liðs allar teiknimyndirnar um Strumpana.
Lög á borð við Súperman og Búkollu hafa fylgt börnum í áraraðir og persónur eins og Eiríkur Fjalar og Saxi læknir hafa aldrei verið langt undan. Laddi hefur komið að tímamótabarnaplötum, eins og til dæmis Glámur og Skrámur í sjöunda himni. Svo var hann auðvitað hluti af dúóinu ódauðlega, Halla og Ladda, ásamt Haraldi bróður sínum.
Á Söguhátíðinni var það í höndum Auðuns og Kötlu að leysa ráðgátuna um hver hlyti heiðursverðlaunin í ár. Þar reyndist Jón Spæjó krökkunum vel og færði þeim mikilvægar vísbendingar. Leitina að heiðursverðlaunahafanum og viðtal sem Auðunn og Katla tóku við Ladda má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.
Meðal þess sem krakkarnir spurðu Ladda að var af hverju hann væri þekktur sem Laddi en ekki Þórhallur. Svarið var einfalt:
„Ætli það sé ekki bara út af því að Laddi er miklu skemmtilegri en Þórhallur. Þórhallur er bara einhver leiðindagaur, Laddi er alltaf skemmtilegur.“
Sögur, verðlaunahátíð barnanna, fer fram í Hörpu í kvöld, laugardagskvöldið 5. júní. Bein útsending frá hátíðinni hófst klukkan 19:45.