Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

G7-ríkin samþykkja 15% lágmarksskatt á fyrirtæki

05.06.2021 - 12:38
Erlent · Asía · Bandaríkin · Bretland · Frakkland · G7 · Ítalía · Japan · Kanada · Þýskaland · Evrópa · Norður Ameríka
epa09248919 Kristalina Georgieva, managing director of the International Monetary Fund (IMF), left, gestures to Janet Yellen, U.S. Treasury secretary, after the family photo on the final day of the Group of Seven Finance Ministers summit in London, Britain, 05 June 2021.  EPA-EFE/HOLLIE ADAMS / POOL
 Mynd: EPA-EFE - BLOOMBERG POOL
Fjármálaráðherrar sjö stærstu iðnríkja heims hafa samþykkt 15% lágmarksskatt á tekjur alþjóðlegra fyrirtækja. Samningurinn er sagður sögulegur og setur þrýsting á önnur ríki að gera slíkt hið sama.

Joe Biden Bandaríkjaforseti setti fyrr á árinu fram tillögu um alþjóðlegan lágmarksskatt til þess að sporna gegn því að einstaka þjóðir laði til sín stórfyrirtæki með lágum sköttum. Þessi sömu fyrirtæki geta svo grætt á starfsemi í öðrum löndum án þess að borga skatta þar. Nú hafa fjármálaráðherrar sjö af stærstu iðnríkjum heims; Kanada, Frakklands, Ítalíu, Japans, Bandaríkjanna, Bretlands og Þýskalands samþykkt þetta. Fyrr í dag hafði BBC hefur eftir Olaf Scholz, fjármálaráðherra Þýskalands, að þessi skattur geti breytt heiminum. Hann komi sér vel nú þegar þjóðir heims eru að takast á við afleiðingar heimsfaraldursins.

Sögulegur samningur

Stjórnvöld á Írlandi hafa tekið þessari hugmynd fálega. Fjöldi alþjóðlegra tæknifyrirtækja og lyfjaframleiðanda hafa flutt sína starfsemi til Írlands vegna lágra skatta þar. Þar er skattur á fyrirtæki 12,5%. Upphaflega hugmynd Bidens var að lágmarksskattturinn yrði 21%. En í dag var samþykkt að setja á 15 prósenta skatt og er samningurinn sagður sögulegur. Tæknirisar eins og Amazon og Google eru á meðal þeirra fyrirtækja sem slíkur skattur hefur áhrif á og eru gríðarlegir fjármunir í húfi.

epaselect epa09246828 British Chancellor of the Exchequer Rishi Sunak (2-R) welcomes G7 Finance Ministers to Lancaster House during the G7 Finance Ministers meeting in London, Britain, 04 June 2021. British Chancellor Sunak will host G-7 Finance ministers and Central bank chiefs, ahead of the main G7 summit scheduled for 11- 13 June 2021.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fjármálaráðherrarnir eru ánægðir með samkomulagið.

Samþykkt G7 ríkjanna setur líka þrýsing á önnur ríki að gera slíkt hið sama. Fjármalaráðherrar 20 stærstu iðnríkja heims hittast á fundi á Ítalíu í júlí þar sem þetta mál verður til umræðu. 

Innan OECD hefur einnig verið unnið að því að móta reglur um hvernig haga megi alþjóðlegri skattlagningu og hafa íslensk stjórnvöld tekið þátt í því starfi. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í viðtali við fréttastofu í síðasta mánuði að hann voni samstaða náist um samræmda skattlagningu. Gríðarlegir fjármunir fara í auglýsingar hér á landi á miðlum eins og Facebook og Google. Tekjur slíkra fyrirtækja hér á landi skipta milljörðum.

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV