Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Búast má við að lúsmýið fari á flug um miðjan júní

05.06.2021 - 10:05
Mynd með færslu
 Mynd: Erling Ólafsson - Náttúrufræðistofnun Íslands
Þurrkar og kuldi í vor urðu til þess að gróður tók seinna við sér. Það varð til að seinka skordýralífi á Íslandi. Skordýrafræðingur kveðst þó búast við að lúsmý birtist innan skamms líkt og undanfarin ár.

Tíðin í vor virðist ekki ekki hafa haft mikil áhrif á lúsmý sem Gísli Már Gíslason, skordýrafræðingur og prófessor emerítus við Háskóla Íslands, segir væntanlegt um miðjan júní. 

Hann segir mýið að finna frá Fljótshlíð í austri, á láglendi suður- og vesturlands og norður í Eyjafjörð. 

„Skordýr hafa verið í dvala eða á lirfustigi og eru að klekjast núna í vorinu. Það gerist samhliða því að fæðan verður tilbúin fyrir skordýr. Þurrlendisskordýr sækja mest í blóm og gróður og þess vegna fer þetta nú saman.“ 

Þurrkarnir töfðu þó ekki fyrir lúsmýinu og Gísli segir styttast í að fólk verði vart við það, einkum í logni á sumarbústaðasvæðum nærri vötnum og ám. Mest er af lúsmýi í Grímsnesi, Kjós og Borgarfirði.  

„Ég á von á það fari á stjá um miðjan júní mánuð eins og undanfarin ár. Ég held þetta sé ekki eins mikið vandamál og fólk heldur. Það hafa alltaf verið hérna skordýr sem bíta fólk.“

„Bitmý hefur sótt að fólki síðan á landnámi, var hér fyrir og kemur í göngum, oftast fyrsta gangan í lok maí byrjun og ein til tvær yfir sumarið í viðbót.“ 

Gísli álítur að fólk muni fljótlega læra að lifa með agnarsmáu lúsmýinu. Það er einn til tveir millimetrar á lengd og bítur á nóttunni innandyra en bitmý gerir það aldrei.  

„Þetta er svona tiltölulega nýuppgötvað. Það getur verið að það hafi verið hérna lengi.“