Útiloka ekki kólnun hafsins umhverfis Ísland

Mynd með færslu
 Mynd: , - RÚV/Landinn
Breytingar á hitastigi og seltu í hafinu við Ísland undanfarin 20 ár má rekja til náttúrulegra sveiflna. Þær tengjast síður breytingum á loftslagi af mannavöldum. Hafstraumar hafa borið hingað heitari og saltari Atlantshafssjó en á árunum 1965 til 1995. Möguleiki er á að kaldur íshafssjór streymi að landinu líkt og gerðist fyrir rúmum 50 árum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Hafrannsóknastofnunar um stöðu umhverfis og vistkerfa í hafinu við Ísland og horfur næstu áratuga. Skýrslan er unnin að undirlagi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Skýrsluhöfundar telja að frekari umskipti verði ef þær loftslagsbreytingar sem rekja megi til athafna mannsins aukast áfram. Allt bendi til að svo verði. 

Taka þurfi tillit til náttúrulegra breytinga á ástandi sjávar og hafstraumum við landið svo útskýra megi áhrif loftslagsbreytinga af mannavöldum með fullnægjandi hætti.

Hlýindatímabil hefur staðið í um 20 ár og engin sérstök merki eru um að því sé að ljúka á næstu árum. Hitastigið og seltan á Selvogsbanka og Faxaflóa virðast vera á uppleið aftur eftir nokkra niðursveiflu á árunum 2012–2016 og ekki er að sjá að lát sé á streymi heits og salts sjávar að landinu.

Ekki útilokað að kalt ferskvatn berist að Íslandsströndum

Í skýrslunni segir að breytingar í hafinu umhverfis Ísland geti gerst tiltölulega hratt og sem dæmi um það eru nefnd hafísárin um miðjan sjöunda áratuginn. Undanfarin fimmtán ár hafa 6.400 rúmkílómetrar ferskvatns verið að safnast fyrir í svonefndum Beaufort-hvirfli í Norður-Íshafi vestanverðu.

Það er viðlíka magn og er talið hafa valdið því fráviki í seltu hafsins sem hófst á hafísárunum og verður vegna aukins styrks hæðarinnar yfir hafsvæðinu. Gefi hún eftir telja vísindamenn ekki hægt að útiloka að kalt ferskvatn flæði til Íslands. 

Ekki sé þó víst að því fylgi jafnmikill hafís og á sjöunda áratugnum enda hefur dregið mjög úr hafís í Norður-Íshafi síðustu áratugi.