Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Trudeau lofar aðgerðum í þágu frumbyggja

04.06.2021 - 07:03
Mynd með færslu
 Mynd: Bahman - Wikimedia Commons
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hét því í gær að stjórnvöld leggi meira fé til að sporna gegn ofbeldi gegn konum, stúlkum og hinsegin fólki úr röðum frumbyggja landsins. Trudeau segir tíma kominn til breytinga, og mörkuð verði leið til þess að binda enda á kerfisbundinn rasisma, kynjamisrétti, fötlunarfordóma og þann efnahagslega ójöfnuð sem viðheldur ofbeldinu.

Innifalið í breytingunum er meira fé til lögreglusveitar frumbyggja og til að efla umræðu um kerfisbundinn rasisma í dómskerfinu og meðal löggæslustofnana. Eins eiga frumbyggjar að fá frekari yfirráð yfir félagsþjónustu í samfélögum þeirra og aðgengi þeirra að heilsugæslu bætt. Enginn tímarammi er þó á áætlunum stjórnvalda. 

Tvö ár eru síðan umfangsmikil skýrsla um dauðsföll yfir eitt þúsund kvenna og stúlkna úr röðum frumbyggja var gefin út. Í skýrslunni var þeim líkt við þjóðarmorð. Fjórum árum áður kom út skýrsla á vegum Sannleiks- og sáttanefndar Kanada þar sem sagði að kanadísk stjórnvöld hafi framið menningarlegt þjóðarmorð með því að neyða yfir 150 þúsund börn úr röðum frumbyggja í heimavistarskóla víða um landið frá seinni hluta 19. aldar til tíunda áratugar síðustu aldar. Á dögunum fundust ómerktar grafir 215 barna við einn slíkan skóla. Sá fundur vakti að nýju upp umræðuna um aðstæður frumbyggja í landinu.

Al Jazeera hefur eftir Denise Pictou-Maloney, formann samtaka sem veittu stjórnvöldum ráð við gerð áætlunarinnar að sem slíkar séu áætlanir góðar. Það sem þurfi hins vegar séu aðgerðir. Hún vonast til þess að sjá einhverjar breytingar innan árs, og einhver viðurlög til þess að tryggja að gripið verði til aðgerða. Lynne Groulx, stjórnandi kvenréttindasamtaka frumbyggja í Kanada, sagði yfirlýsingu Trudeau ekki nægilega skýra. Al Jazeera hefur eftir henni að þetta sé áætlun um að gera áætlun síðar.