Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Smit gærdagsins bundin við afmarkaðan hóp

04.06.2021 - 12:11
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Sjö greindust með COVID-19 utan sóttkvíar í gær. Fólkið er umsækjendur um alþjóðlega vernd og býr á afmörkuðum stað. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir bindur vonir við að smitið sé afmarkað hjá þessum hópi og að vel gangi að komast fyrir það.

Þau sjö sem greindust með COVID-19 innanlands í gær voru öll utan sóttkvíar. Ekki hafa greinst jafn mörg smit innanlands frá 12. maí og ekki fleiri frá 28. apríl þegar smitin voru tíu talsins. „Þetta eru smit sem hafa komið upp í hópi hjá umsækjendum um alþjóðlega vernd sem búa hér á tiltölulega afmörkuðum stað á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Þórólfur. Fólkið dvelur í húsnæði sem það fékk úthlutað meðan beiðnir þess um alþjóðlega aðstoð eru afgreiddar.

Þórólfur segir að rannsaka þurfi betur hjá nokkrum hvort smitin séu gömul eða ný. Að auki er ráðist í sýnatökur og smitrakningu til að kortleggja smitið. Þórólfur bindur vonir við að útbreiðslan sé ekki mikil. 

Vegna tengsla fólksins gæti verið minni hætta á að tíðindi gærdagsins séu til marks um útbreitt smit. „Ég myndi álykta að það væri þannig. Við vorum með smit í svona fyrir áramótin líka og það gekk fljótt að stoppa það af. Ég hef fulla trú á og bind vonir við að það muni takast líka núna.“ Þetta sé í takt við varnaðarorð um að það geti komið til hópsmita þótt stærri bylgjur í faraldrinum séu ólíklegar. „Mér finnst þetta ekki breyta heildarmyndinni. Ég vona að þetta sé afmarkað hjá þessum hópi og nái ekkert frekari útbreiðslu. Þannig að ég held að þetta þurfi ekki að setja okkur út af laginu.“

Ekki er ljóst hvernig fólkið smitaðist en hægt er að rekja smitin til smits sem kom upp í Hvaleyrarskóla í Hafnarfirði fyrir nokkru. Raðgreining er þó eftir. Ekki er ljóst hvernig sú veirutegund komst inn í landið, hún greindist ekki á landamærunum.

Fimm greindust á landamærunum en þau bíða mótefnamælingar og því er ekki ljóst hvort að smit þeirra eru ný eða gömul.