Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Ömurlegt að draga prófkjörsbaráttu inn í þingsal“

04.06.2021 - 19:25
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Formaður Samfylkingarinnar gagnrýndi utanríkisráðherra á Alþingi í dag fyrir samráðsleysi og fyrir að nota nýgerðan fríverslunarsamning við Bretland í prófkjörsbaráttu Sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kynnti í morgun samkomulag um nýjan fríverslunarsamning Íslands og Bretlands. Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar gagnrýndi ráðherra við upphaf þingfundar í dag og furðaði sig á því að samningurinn hefði fyrst verið kynntur í fjölmiðlum en ekki í utanríkismálanefnd og tengdi það við prófkjör Sjálfstæðismanna í borginni. Guðlaugur Þór og flokkssystir hans Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir sækjast bæði eftir oddvitasætinu í prófkjörinu í Reykjavík, sem nú stendur yfir.

„Ég veit að hæstvirtur utanríkisráðherra er að fara í prófkjör Sjálfstæðisflokksins á morgun en það er náttúrulega ömurlegt að vera að draga prófkjörsbaráttuna hérna inn í þingsali í stað þess að reyna að efla virðingu Alþingis eins og átti að gera í stjórnarsáttmálanum,“ sagði Logi Einarsson.

Sigríður Á. Andersen þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður utanríkismálanefndar sagði að stjórnarandstaðan hefði hafnað að mæta á sérstakan kynningarfund.

„Það var boðað til fundar og háttvirt utanríkismálanefnd var upplýst um gerð þessa fríverslunarsamnings áður en fréttir af þessum samningi birtust í fréttamiðlum, eftir því sem ég best fæ séð af umfjöllun fjölmiðla,“ sagði Sigríður.

Guðlaugur kvartaði í gær til yfirkjörstjórnar Sjálfstæðismanna í Reykjavík og taldi að Áslaug hefði brotið prófkjörsreglur flokksins. Yfirkjörstjórnin komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að kvörtunin ætti ekki við rök að styðjast.

Áslaug segir að kvörtunin hafi komið á óvart og vísar öllum ásökunum á bug.

„Það er ekkert til í þessu,“ segir Áslaug.

Hvorki Áslaug né Guðlaugur telja að þetta eigi eftir að draga dilk á eftir sér.

„Nei nei, við Sjálfstæðismenn erum vön því að há prófkjör og ég hef svo sannarlega farið í gegnum þau mörg. Þannig að það er alltaf gaman í prófkjörum og síðan þegar við erum búin að klára prófkjörið þá stöndum við sameinuð í kosningunum sem skipta öllu máli, sem eru alþingiskosningar,“ segir Guðlaugur Þór.