Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Nokkur lög brotin þegar ólétt kona var send úr landi

04.06.2021 - 20:04
Mynd með færslu
 Mynd: Réttur barna á flótta - RÚV
Landlæknisembættið telur að læknir á vegum Útlendingastofnunar hafi brotið gegn lögum um heilbrigðisstarfsmenn, lögum um útgáfu læknisvottorða og lögum um réttindi sjúklinga þegar albönsk kona, komin 36 vikur á leið, var send í 19 tíma flug til Albaníu haustið 2019.

Þetta kemur fram í samantekt á ákvörðun landlæknis sem Claudia Wilson, lögmaður konunnar, sendi fréttastofu.

Claudia gat ekki sent alla ákvörðun embættisins vegna persónuverndarsjónarmiða.  Visir.is greindi fyrst frá. Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, gat ekki staðfest niðurstöðuna þar sem hann hafði ekki séð hana.

Mál albönsku konunnar vakti hörð viðbrögð hér á landi. Útlendingastofnun ákvað að vísa henni, eiginmanni hennar og tveggja ára barni úr landi í nóvember fyrir tveimur árum þrátt fyrir að hún væri gengin 36 vikur á leið og að læknir á Landspítalanum hefði talið að hún væri ekki fær í flug.

Stuðst var við vottorð frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem gefið var út daginn fyrir brottför. Útlendingastofnun sagðist reiða sig á slík vottorð því hún hefði ekki aðgang að sjúkraskrám eða öðrum upplýsingum úr heilbrigðiskerfinu.

Landlæknisembættið hóf strax athugun á málinu og leit það alvarlegum augum ef farið hefði verið gegn ráðleggingum sérfræðinga.  

Claudia fékk ákvörðun landlæknis í hendurnar í dag og þar eru gerðar alvarlegar athugasemdir við hvernig staðið var að útgáfu vottorðsins sem var forsenda þess að konan og fjölskylda hennar voru send úr landi. 

Í samantektinni segir meðal annars að læknirinn hafi ekki mátt gefa út vottorð um flugfærni konunnar án þess að skoða hana við gerð vottorðsins.

Ekki hafi verið nóg að viðkomandi læknir hafði skoðað konuna vegna útgáfu sambærilegs vottorðs 13 dögum fyrr. Nauðsynlegt hafi verið að ganga úr skugga um nákvæma meðgöngulengd, hvort hætta væri á fyrirburafæðingu eða líkur á blóðtappamyndun við þessar aðstæður.

Í samantektinni segir einnig að landlæknir telji að læknirinn hefði átt leita eftir aðstoð sérfræðings á viðkomandi sviði, svo sem til ljósmóður eða sérfræðings á sviði fæðinga-og kvensjúkdóma „sem hefðu getað metið ástand vegna hins langa ferðalags, mögulegrar fyrirburafæðingar eða hugsanlegra fylgisjúkdóma meðgöngu, t.d. meðgöngueitrunar.“ 

Þá segir jafnframt að umræddur læknir hafi ekki tryggt konunni fullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Það sé því mat landlæknis að læknirinn hafi brotið gegn lögum um heilbrigðisstarfsmenn, lögum um útgáfu læknisvottorða og lögum um réttinda sjúklinga.

Haft er eftir Claudiu á vef visir.is að umbjóðandi hennar ætli að leita réttar síns „sérstaklega í ljósi þess að hún er enn að lifa við afleiðingar þessara brota.“