Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Miklar verðhækkanir óhjákvæmilegar

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Ófremdarástand er á markaði með hrávörur. Heimsmarkaðasverð á flestum vörum hefur hækkað um tugi prósenta og skortur er á ákveðnum vörum. Í ofanálag hefur flutningskostnaður frá Asíu margfaldast og eru miklar verðhækkanir á byggingavörumarkaði hér heima í aðsigi.

Verð á nánast öllum hrávörum til byggingaiðnaðar eru á hraðri uppleið, einkum og sér í lagi á timbri og stáli og nemur hækkunin tugum prósenta. Vegna COVID-19 faraldursins hafa orðið miklir hnökrar á framleiðslu á sama tíma og eftirspurn eftir hrávörum er mjög mikil, einkum í Bandaríkjunum þar sem mikill uppgangur er á fasteignamarkaði. Hækkandi olíuverð og skortur á gámum hefur svo keyrt upp flutningskostnað og hefur gámaverð frá Asíu rúmlega þrefaldast.

Verð hækka um allt að 30 prósent á milli sendinga

Allt þetta skilar sér í hærra verðlagi hér heima. Fréttastofa hefur rætt við verktaka og birgja á byggingavörumarkaði sem segjast finna vel fyrir verðhækkunum. Einn birgi sem fréttastofa talaði við orðaði það þannig að markaðurinn væri „crazy“.  Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri Byko, segir óhjákvæmilegt að þessar hækkanir skili sér út í verðlagið. Verð hafi þegar hækkað og frekari hækkanir séu fyrirsjáanlegar. „Við sjáum það í stáli og timbri að innkaupsverð milli sendinga er að hækka í timbrinu svona í kringum 30 prósent, svolítið misjafnt eftir vöruflokkum en allt að 30 prósent á milli sendinga sem við erum að sjá núna.“

Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, tekur í sama streng. Reynt hafi verið að halda aftur af verðhækkunum og ganga á eldri birgðir, en að framundan séu óhjákvæmilegar hækkanir jafnvel þótt gengi krónunnar hafi styrkst að undanförnu. Bæði Byko og Húsasmiðjan finna fyrir því að afhendingartími hafi lengst og í ákveðnum vöruflokkum, einkum timbri, er skortur.

Vonast eftir verðlækkunum samhliða bólusetningum

Vonir standa til að verð taki að lækka eftir því sem bólusetningum við COVID-19 fleygir fram. „Svona sögulega séð þá gerist það, þetta mun ganga til baka. Hvenær það verður, það er erfitt að spá fyrir um það eins og staðan er núna. Það er bara mikil eftirspurn í öllum heiminum, bæði Evrópu og Ameríku eftir timbri, stáli og öðrum hrávörum. Hvenær það verður, í haust eða kringum áramótin, mögulega.“

Hækkanirnar koma illa við verktaka sem flestir eru að vinna eftir tilboðum sem gerð voru áður en verðhækkana varð vart. Þeir sem fréttastofa hefur rætt við segja að þau tilboð sem nú eru í bígerð taki mið af þeim og því ljóst að kostnaður við framkvæmdir mun hækka umtalsvert á næstu mánuðum.

Magnús Geir Eyjólfsson