Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kennsla gæti hafist í Fossvogsskóla seinni hluta ársins

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Skólastjóri Fossvogsskóla telur möguleika á að í haust verði unnt að hefja kennslu í þeim hluta Fossvogsskóla sem gengur undir heitinu Austurland. Það geti þó dregist fram að áramótum. Foreldri nemenda við skólann segir þær fyrirætlanir óásættanlegar.

Ingibjörg Ýr Pálmadóttir skólastjóri sendi foreldrum tölvupóst þessa efnis um mánaðamótin en segir að ljóst sé að skólaárið hefjist í Korpuskóla. Það sé vegna þess að nokkurn tíma taki að koma færanlegum kennslustofum fyrir.

Unnið verður að viðgerðum í sumar

Ingibjörg segir í samtali við fréttastofu að skólastjórnendur hafi hvorki fengið lokaskýrslu né verkáætlun verkfræðistofunnar Eflu. Henni hafi þó verið sagt að þeirra megi vænta fljótlega. 

Farið verði í að ljúka viðgerðum á Austurlandi í sumar og að kennsla og önnur starfsemi þar geti hafist jafnhliða í færanlegu stofunum. Ingibjörg Ýr segir ljóst að kennsla hefjist ekki þar fyrr en síðar í haust eða jafnvel um áramót. 

Sigríður Ólafsdóttir, foreldri barns við skólann, er afar gagnrýnin á þær fyrirætlanir enda liggi áðurnefnd lokaskýrsla og verkáætlun ekki fyrir. Hún segir í samtali við fréttastofu að þetta lýsi því ótrúlega úrræðaleysi sem borgin hafi viðhaft í málinu. 

„Þrátt fyrir að lofa öllu fögru stendur ekki steinn yfir steini í því að ljáta börnin njóta vafans,“ segir Sigríður.

Starfsfólk lýsir megnri óánægju

Í yfirlýsingu meirihluta starfsfólks Fossvogsskóla sem Þórdís Pálsdóttir varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins las upp á borgarstjórnarfundi 1. júní segir að margir starfsmenn hugsi sér til hreyfings vegna aðstæðnanna og að nýskráningum í skólann hafi fækkað. 

Korpuskóli sé of lítill fyrir nemendur og starfsfólk og að finna megi fyrir kvíða, þreytu og óróleika meðal nemenda vegna þrengsla í skólanum og rútuferðanna þangað. Álag sé því mikið og finna þurfi ásættanlegt kennsluhúsnæði nær Fossvogsskóla. 

Hálf vika eftir af þessum vetri

Ingibjörg Ýr Pálmadóttir kveðst hafa fullan skilning á því að þungt sé í  foreldrum og kennurum. Hún segir þó skiptar skoðanir meðal þeirra, sum séu ánægð en öðrum finnist staðan mjög erfið. Hún segist þó leggja ríka áherslu á að efla skólastarfið og að öllum líði sem sem best.

Skólastjóri segir að á fundum með fulltrúum skóla- og frístundasviðs og umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar hafi komið fram eindreginn vilji til að vinna að því að koma starfsemi skólans sem fyrst í Fossvoginn. 

Nú er rúm vika eftir af skólaárinu, skólaslit eru næstkomandi miðvikudag. Ingibjörg Ýr segir stefnt er að því að nánari fregnir af framkvæmdum við skólann verði sendar í kringum 15. júní.