„Íslendingar virðast taka vel í þessa nýju tækni"

04.06.2021 - 11:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framkvæmdarstjóri Orkuseturs segir að allt bendi til þess að markmið stjórnvalda um 40 prósenta hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa árið 2030 náist án vandkvæða. Hröð rafbílavæðing skipti það höfuðmáli.

Markmið fyrir 2020 náðist

Í gær var greint frá því að markmiðum Íslands um að einn tíundi hluti samgöngukerfisins yrði knúinn með endurnýjanlegum orkugjöfum hefði náðst. Reyndar gott betur því hann var í lok síðasta árs 11,4 prósent. Það er töluverð breyting frá á síðustu tíu árum. Árið 2011 var hlutfallið í samgöngum innan við eitt prósent hérlendis og töluvert lægra en almennt gerðist annars staðar. Sigurður Friðleifsson, framkvæmdarstjóri Orkuseturs segir hraða þróun í rafbílatækni skipta sköpum. 

„Lykillinn var náttúrlega, fyrst þá byggði þetta á íblöndun á lífeldsneyti í hefðbundið eldsneyti og það skilaði svona mestu áður en við fegnum rafbílana inn og þeir hafa svo komið hrikalega sterkir inn sem hlutfall inn í þetta. Þar náttúrulega erum við á fleygiferð," segir Sigurður. 

 

Stjórnvöld hafa sett sér markmið um að Ísland verði leiðandi í grænum samgöngum, með 40 prósenta hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa árið 2030. Árið 2050 er svo ætlunin að samgöngur á Íslandi verði alfarið óháðar jarðefnaeldsneyti og noti þess í stað 100% endurnýjanlega orkugjafa. Sigurður segir allt benda til að það náist. 

Valið orðið auðveldara fyrir fólk

„Ég er bara mjög bjartsýnn á það, það er allt að vinna með okkur. Íslendingar virðast taka vel í þessa nýju tækni. Og það sem styður okkur eru í raun og veru bæði kostnaðarlækkun og fjölbreytni farartækja sem keyra á rafmagni og öðru er núna í boði. Þannig að þetta er miklu auðveldara val fyrir fólk að skipta en áður var þegar þetta voru bara örfáar tegundir."