Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fimm djammvænar diskókúlur á föstudegi

Mynd með færslu
 Mynd: Greyson Joralemon - Unsplash

Fimm djammvænar diskókúlur á föstudegi

04.06.2021 - 13:15

Höfundar

Þórólfur verður væntanlega ekki ánægður með fimmuna að þessu sinni því hún bókstaflega hvetur fólk til að fara óvarlega um helgina og sleppa fram af sér djammbeislinu. Við byrjum í dansvænu póstpönki Bristol-sveitarinnar Idles og förum síðan í fjögur lög sem smellpassa á klúbbinn frá A Certain Ratio ásamt Emperor Machine, Cola Boyy ásamt The Avalanches, Róisín Murphy og samstarfi Duke Dumont og Channel Tres.

Idles, Gang Of Four – Damaged Goods

Lagið Damaged Goods gengur í endurnýjun lífdaga hjá Bristol-sveitinni Idles á heiðursplötunni The Problem of Leisure sem er gerð til heiðurs gítarhetjunni Andy Gill úr Gang of Four sem lést í fyrra. Það er greinilega djúp virðing í gangi hjá Idles sem halda laginu mjög nálægt upprunanum enda segja þeir í tilkynningu að það væri ekkert Idles án Gang Of Four og að lagið hljómi jafn ferskt núna og 1979 þegar það kom út.


A Certain Ratio ásamt Emperor Machine – Emperor Machine

Áfram með gamla póstpönkara sem kunna að dansa því Manchester-sveitin A Certain Ratio hefur sent frá sér lagið Emperor Machine þar sem þeir minnast plötusnúðarins Andrews Weatherall. Lagið vinna þeir með Emperor Machine hefur meðal annars remixað Daft Punk, The Knife og Moby. Það er tekið af þröngskífu sem er öll tileinkuð kappanum og kom út fyrir tveimur dögum á Mute.


Cola Boyy ásamt The Avalanches – Don't Forget Your Neighborhood

Cola Boyy er mættur aftur í fimmuna og að þessu sinni með samstarf við ástralska dansdúettinn The Avalanches. Don't Forget Your Neighborhood er annar söngullinn sem við fáum af væntanlegri plötu diskókúlunnar Cola Boyy þar sem hann vinnur líka með Mick Jones og MGMT.


Róisín Murphy – Shellfish Mademoiselle (Paul Woolford Club Mix)

Það er langt síðan diskófrænkan Róisín Murphy hefur komið í heimsókn en hún sendi í síðustu viku frá sér klúbbavæna endurhljóðblöndun af lagi sínu Shellfish Mademoiselle hjá plötufyrirtækinu Skint, sem lúðraði út Big Beat-tónlist eins og enginn væri morgundagurinn á tíunda áratugnum.


Duke Dumont, Channel Tres – Alter Ego

Adam George Dyment er betur þekktur sem breski plötusnúðurinn Duke Dumont og hefur sem slíkur átt nokkur lög sem hafa toppað Billboard danslistann. Í nýja laginu sínu, Alter Ego, vinnur hann með húsrapparanum Channel Tres frá LA sem hefur á undanförnum árum átt nokkra góða slagara fyrir dansgólfið.


Fimman á Spotify