Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Enginn trúði fólkinu hérna“

04.06.2021 - 19:45
Mynd: CBC / CBC
Forsætisráðherra Kanada heitir aðgerðum gegn rasisma og ætlar að setja aukið fé í málaflokkinn. Fjöldagröf barna sem nýlega fannst við heimavistarskóla sem börn frumbyggja voru þvinguð í hefur vakið mikinn óhug og reiði meðal íbúa landsins. Kona sem var þvinguð í skólann segir að börnunum hafi ekki verið trúað.

215 lík barna voru í fjöldagröfinni sem fannst í borginni Kamloops í Bresku-Kólumbíu. Börnin voru nemendur í heimavistarskóla sem settur var á fót í því skyni að aðlaga börn af frumbyggjaættum kanadísku samfélagi. Að minnsta kosti 150 þúsund börn voru sett í skóla af þessu tagi frá 1870 og allt fram til 1996. Ein þeirra er Marie Narcisse. „Í dag er erfitt fyrir fólk að koma hingað. Þetta vakti bara upp fleiri minningar,“ segir hún. 

Auk þess að vera svipt menningu sinni og tungu voru börnin beitt kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi. „Enginn trúði fólkinu hérna, börnunum sem voru hér. Getið þið ímyndað ykkur hryllinginn, að horfa á manneskju deyja og vita ekki hvers vegna?“ segir Marie Narcisse. 

Fjarlægðu styttu af fyrsta forsætisráðherranum

Víða um landið hefur fólk sýnt stuðning og samhug með því að koma saman til mótmæla. Þessi stytta af Sir John A. Macdonald, fyrsta forsætisráðherra Kanada, stóð í miðborg Charlottetown en hefur nú verið fjarlægð. Hann átti stóran þátt í því að koma á fót heimavistarskólum eins og Kamloops. Forsætisráðherra Kanada hét í gær gera betur og setja aukið fjármagn í að efla umræðu um kerfisbundinn rasisma.