Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Víðir bjartsýnn á að slaka megi á sóttvarnareglum

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir ástæðu til bjartsýni á að enn megi slaka á sóttvarnareglum um miðjan mánuð, enda minnki líkur á stórum hópsmitum. Núgildandi reglugerð um takmarkanir innanlands gildir til 16. júní.

Einn greindist með kórónuveiruna innanlands í gær, í sóttkví, og tveir á landamærunum. Ekki þótti ástæða til að halda upplýsingafund almannavarna í dag eins og venjan hefur verið á fimmtudögum. 

Víðir Reynisson segir þó að halda þurfi vöku sinni í örfáar vikur til viðbótar.

„Ég að allir séu á tánum enn þá, við vitum að við þurfum að vera það einhverjar vikur í viðbót. En þessar massabólusetningar sem eru í gangi skila okkur því að með hverri vikunni sem líður minnka líkurnar á stórum hópsmitum. Það er það sem við stefnum að.“ 

Víðir kveðst bjartsýnn á að enn megi slaka á sóttvarnareglum ef ekkert bakslag verði. 

„Gildandi reglugerð er til 16. júní. Og ég held að um miðja næstu viku þá fari menn yfir hættumatið og sjái hvernig staðan er og hvort ástæða sé til breytinga. Vonandi verður það, það er alla vega stefna allra að taka skref í afléttingarátt á næstu vikum. Vonandi verður það orðið tímabært í næstu viku.“ 

Víðir segir það muni liggja fyrir í næstu viku hvort skemmtanahald síðustu helgar hafi áhrif á útbreiðslu veirunnar. „Kannski á mánudag eða þriðjudag í næstu viku verðum við komin mynd á hvort þetta hafi haft einhver áhrif eða ekki.“

Hann kveðst hins vegar ekki hafa áhyggjur af fjölgun ferðamanna til landsins og að hann hafi ekki orðið var við alvarleg sóttvarnabrot innanlands. 

„Við erum búin að ná, með góðu skipulagi og með aðkomu Íslenskrar erfðagreiningar, að greina öll sýni þeirra sem hingað koma. Það gengur vel og er á pari við það sem við áttum von á.“

Hann segir þróunina í komu ferðamanna hafa verið hraðari í maí en búist var við þegar verið var að skipuleggja sumarið. 

„Með þeim aðgerðum, ráðstöfunum og reglum sem eru í gangi núna ráðum við vel við þetta. Þetta lítur bara vel út. Sóttvarnareglurnar eru það rúmar að ég held að öllum hafi tekist að halda sig innan gildandi reglna. Það voru engin stórmál sem ég hef frétt af.“

Víðir álítur grímuskyldu sem nýlega var afnumin að stórum hluta, hafa orðið til þess að fólk var frekar vakandi fyrir fjarlægðarmörkum og eigin persónulegu sóttvörnum.

„Kannski gerist það þegar grímunotkun minnkar, passi menn sig eitthvað minna. Það er erfitt að segja til um það en gríman var svona áminning fyrir alla að passa sig. Það er kannski eðlilegt að menn slaki aðeins á en ég held við séum öll meðvituð um þetta en gleymum okkur stundum.“ 

„Það er engin ástæða til annars en að vera bjartsýn og glöð. Það er ekki langt eftir af verkefninu og það verður léttara með hverri vikunni.“