Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Það er ekkert ofbeldi án geranda“

Mynd: RÚV / Skjáskot
Það er ekkert ofbeldi án geranda. Þetta segir Eygló Harðardóttir fyrrverandi félagsmálaráðherra, en í dag voru kynntar viðamiklar aðgerðir fyrir gerendur í ofbeldismálum. Skortur hefur verið á úrræðum fyrir þennan hóp.

Aðgerðirnar eru byggðar á tillögum aðgerðateymis sem sett var á fót af dómsmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra. Í teyminu voru Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri og Eygló Harðardóttir fyrrverandi félagsmálaráðherra og voru aðgerðirnar kynntar á fundi ríkislögreglustjóra í dag.

Meðal þess sem ráðast á í er að þróað verði kerfi sem metur áhættuna á kynferðisbrotum, lögreglumenn fá aukna þjálfun í að afla upplýsinga í slíkum málum og unnið verður fræðsluefni sem verður birt á vefnum 112.is.  

„Þar erum við að horfa til þess hvernig sé hægt að koma fyrr inn og koma í veg fyrir að brotin eigi sér stað með því að bjóða upp á fjölbreyttari úrræði,“ segir Eygló. „Síðan var verið að kynna þau úrræði sem gerendum hafa staðið til boða - það er Heimilisfriður sem við þekkjum mjög vel sem snýr að ofbeldi í nánum samböndum og líka nýtt úrræði sem kallar sig Taktu skrefið.“

Það er ætlað þeim sem hafa framið kynferðisbrot eða vilja breyta kynhegðun sinni. Til að vekja athygli á þessu og öðrum úrræðum verður farið í auglýsingaherferð þar sem fólk verður hvatt til að leita sér aðstoðar. Eygló segir að of lítil áhersla hafi verið lögð á aðstoð fyrir gerendur fram að þessu.

Ef við horfum einfaldlega á þau úrræði sem hafa verið til staðar, þá hafa þau verið alltof fá. Það er ekkert ofbeldi án geranda - þannig að ef við erum ekki með neina gerendur -  þá erum við ekki með neina þolendur.

„Þannig að það er þessi vítahringur sem við erum að vonast til að geta stöðvað. Það gerum við ekki öðruvísi en að bjóða upp á úrræði, grípa fyrr inn í málin og taka höndum saman. Vegna þess að þetta er verkefni okkar allra, að stöðva ofbeldi.“