Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Telur nýju dönsku lögin ekki samræmast ESB-löggjöf

03.06.2021 - 19:13
Hús framkvæmdastjórnar ESB í Brussel. - Mynd: EPA / EPA
Danska þingið samþykkti í morgun lög sem heimila yfirvöldum að senda umsækjendur um alþjóðlega vernd til ríkja utan Evrópu á meðan þeir bíða niðurstöðu sinna mála. Talsmaður Framkvæmdastjórnar ESB í málefnum flóttafólks segir lögin ekki samræmast Evrópulöggjöf.

Ekki aðeins á flóttafólkið að bíða niðurstöðu í þriðja ríki, því ef dönsk yfirvöld veita fólki alþjóðlega vernd má það samt ekki koma aftur til Danmerkur heldur fær það leyfi til að búa í landinu þar sem það beið niðurstöðunnar. Danskir fjölmiðlar greina frá því að yfirvöld hafi átt í viðræðum við Egyptaland, Erítreu og Eþíópíu um að hýsa flóttamenn sem hafa sótt um hæli í Danmörku. Á dögunum undirrituðu fulltrúar Rúanda og Dana viljayfirlýsingu um samvinnu í málefnum flóttamanna. 

Frumvarpið var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta. Það er þó umdeilt og hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna meðal annarra mótmælt lögunum harðlega. 

Danir eiga aðild að Evrópusambandinu og ætlar framkvæmdastjórn þess að skoða málið vel á næstu dögum, áður en ákvörðun verður tekin um næstu skref. „Afgreiðsla utanlands á hælisumsóknum vekur upp grundvallarspurningar bæði um aðgang að málsmeðferðinni og svo aðgengi að virkri vernd. Slíkt er ekki mögulegt út frá núgildandi reglum ESB eða tillögum nýja samningsins um flóttafólk og hælisvernd,“ segir Adalbert Jahnz, talsmaður Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í málefnum flóttafólks.

epa08283060 Danish Prime Minister Mette Frederiksen holds a press briefing on the novel coronavirus Covid-19 situation, in Copenhagen, Denmark, 10 March 2020. Denmark announced on the day that it has registered 156 cases of Covid-19 infections.  EPA-EFE/LISELOTTE SABROE  DENMARK OUT
 Mynd: EPA - RÚV

Sósíal-Demókratar lögðu frumvarpið fram á danska þinginu. Rasmus Stoklund, þingmaður Sósíal-Demókrata og nefndarmaður í innflytjendamálanefnd danska þingsins, telur að þegar fólk átti sig á því að það verði sent til bana til landa utan Evrópu ef það komi til Danmerkur þá hætti það að koma til Danmerkur. „Það hættir þá að stefna sjálfu sér í hættu á Miðjarðarhafi,“ sagði hann í dag eftir að lögin voru samþykkt. 

Michala Bendixen, talsmaður mannúðarsamtakanna Refugees Welcome í Danmörku er á allt öðru máli. „Í fyrsta lagi er það þvæla að þetta komi í veg fyrir að fólk leggi á hafið því ekki verður hægt að biðja um hæli frá viðkomandi landi. Svo að engu að síður verður að fara yfir hafið. Það er því afkáralegt að segja þetta mannúðarlegt.“