Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Slakað á sóttvarnareglum á Grænlandi

03.06.2021 - 14:31
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia
Slakað hefur verið á hertum sóttvarnareglum í Nuuk, höfuðstað Grænlands, enda hefur tekist að finna uppruna lítils hópsmits sem kom þar upp í síðustu viku. Grænlenska flugfélaginu Air Greenland er nú heimilt að flytja 810 farþega vikulega frá Danmörku til Grænlands.

Enn er aðeins heimilt að fljúga til landsins frá Kaupmannahöfn. Nýjar sóttvarnareglur tóku gildi 1. júní en fram að því máttu 600 koma til landsins í hverri viku. Frá þessu er greint á vef grænlenska útvarpsins KNR og að nýju reglurnar gildi hið minnsta til 30. júní næstkomandi.

Enn þarf að framvísa neikvæðu kórónuveiruprófi áður en leggja má af stað frá Kastrup og fara í fimm daga sóttkví við komu til Grænlands. Fullbólusettu fólki er gert að fara í skimun daginn eftir komu sem þýðir aðeins einn dag í sóttkví.

Sömu reglur eiga við um börn á aldrinum tveggja til tólf ára en ekki þarf að skima börn yngri en tveggja. Ekki stendur til að opna landið að fullu fyrr en 75% eldri en 18 ára verði bólusett, sem búist er við að verði í ágúst eða september, að sögn Múte B. Egede formanns landsstjórnar Grænlands.

Um mánaðamótin var jafnframt slakað á sóttvarnareglum sem settar voru 28. maí eftir að sex starfsmenn verktakafyrirtækis sem vinnur við byggingu flugstöðvar í Nuuk greindust með veiruna. Enginn utan starfsmannahópsins hefur greinst og því talið að tekist hafi að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.