Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Marek Moszczynski ósakhæfur og skal sæta öryggisvistun

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson
Marek Moszczynski, sem var meðal annars ákærður fyrir þrjú manndráp og tíu manndrápstilraunir með því að kveikja í húsi á Bræðraborgarstíg í fyrrasumar, var rétt í þessu sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hann var metinn ósakhæfur og skal sæta öryggisvistun á viðeigandi stofnun.

Moszczynski var ekki viðstaddur dómspuppkvaðninguna en hefur fjórar vikur til að ákveða hvort hann áfrýjar málinu til Landsréttar. 

Aðalmeðferð í dómsmálinu gegn honum lauk 5. maí síðastliðinn en hann lýsti yfir sakleysi þegar aðalmeðferðin hófst. Ríflega þrjátíu báru vitni, meðal annarra aðrir íbúar hússins, nágrannar, lögreglumenn og geðlæknar. Dómurinn var fjölskipaður.

Húsið við Bræðraborgarstíg 1 brann 25. júní í fyrra en töluverðan tíma tók að slökkva eldinn. Rannsókn lögreglu hófst þegar í stað og strax var þrennt handtekið vegna málsins, Moszczynski þeirra á meðal en nokkru síðar var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald. 

Þrjú fórust í brunanum, tvær konur 24 og 26 ára og 21 árs karl­maður. Sautján manns kröfðust bóta í málinu, meðal annars vegna útfararkostnaðar og sjúkrakostnaðar. Moszczynski var gert að greiða á þriðja tug milljóna í bætur en málskostnaður greiðist úr ríkissjóði.

Saksóknari krafðist þess að Moszczynski fengi ævilangan fangelsisdóm. Til vara var farið fram á 20 ára fangavist en teldi dómurinn hann ósakhæfan skyldi hann vistaður á öryggisgeðdeild. Þeir geðlæknar sem lögðu mat á andlegt ástand Moszczynskis töldu hann ósakhæfan.

Fréttin var uppfærð klukkan 15:28.