Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ljóðrænn Aziz Ansari eftir ásakanir í #metoo-bylgju

Mynd: Cian Oba-Smith / Netflix

Ljóðrænn Aziz Ansari eftir ásakanir í #metoo-bylgju

03.06.2021 - 14:19

Höfundar

Í byrjun árs 2018 var leikarinn Aziz Ansari sakaður um að fara langt yfir mörkin í samskiptum við ónefnda konu á stefnumóti með þrálátu suði um kynlíf, ýtni og virðingarleysi. Hann dró sig í hlé eftir umdeilda afsökunarbeiðni en sneri aftur rúmu ári síðar með nýtt uppistand. Þriðja serían af þáttum hans Master of None hefur litið dagsins ljós og nú er hans karakter lúserinn í bakgrunni í ástarsögu tveggja sterkra kvenna.

Júlía Margrét Einarsdóttir skrifar:

Leikstjóri þáttanna Master of None, Aziz Ansari, er fæddur og uppalinn í Bandaríkjunum en foreldrar hans eru innflytjendur frá Indlandi. Hann sló snemma í gegn í hinni kappsömu uppistandssenu í New York og var svo lofaður í bak og fyrir fyrir hlutverk sitt í gamanþáttunum Parks and Recreation. Í kjölfarið hreppti hann hlutverk í hinum fjölmörgu sjónvarpsþáttum og kvikmyndum og var þegar orðinn heimsþekktur leikari og grínisti þegar hann kynnti fyrir notendum streymisveitunnar Netflix fyrstu seríuna af Master of None sem hann skapar sjálfur ásamt Alan Yang.

Ekki bara vinir að skandalísera og fara á trúnó

Þættirnir fjalla um Dev, leikara og grínista sem berst í bökkum eins og margir ungir leikarar við að koma sér á framfæri í stórborg draumanna New York. Aðalpersónunni svipar mikið til Aziz sjálfs þó að augljóslega sé sagan ekki öll sjálfsævisöguleg en þó má nefna að svo langt er gengið í líkindunum að hlutverk foreldra hans í fyrstu seríunni er í höndum raunverulegra foreldra hans, þeirra Shoukath og Fatima Ansari.

Í fyrstu virðist vera um að ræða létta skemmtiþætti um ástir og örlög upprennandi leikara í New York, þar sem borgin spilar stórt hlutverk með háum byggingum og enn hærri væntingum upprennandi skemmtikrafta sem sjaldan verða að veruleika. Fljótt verður ljóst að meira býr undir glansandi yfirborðinu.

Með hlutverk vina Devs í þáttunum fara grínistarnir Eric Wareheim og Lena Waithe. Vinirnir fara á misheppnuð stefnumót, hittast á barnum, gera sig að fíflum á mannamótum og lifa formúlukenndu vinalífi, en hægt og rólega er kafað á dýpri og það glittir í alvarlegri undirtón. Umfjöllunarefnin eru meðal annars kynþáttafordómar, menningarárekstrar, trúmál og viðhorf til hinseginleika innan ólíkra samfélaga. Eftir því sem þáttunum vindur fram og líður á aðra seríu fara efnistökin að verða þyngri og birtingarmynd þeirra listrænni.

Knúinn til að líta í spegil og taka ábyrgð á gjörðum sínum

Það er ekki að undra að krafa áhorfenda um meiri Master of None hafi orðið hávær þegar seinni sería rann sitt skeiða.

Í viðtali við Vulture sama ár viðurkennir Aziz að það hafi verið meðvituð ákvörðun hjá sér og Alan Yang í annarri seríu að taka áhættu hvað varðar kvikmyndagerð og efnistök en kvaðst alls ekki viss um hvort það kæmi þriðja sería, aðdáendum hans til mikils uggs. „Ég þarf að verða annar maður áður en ég skrifa þriðju seríuna finnst mér,“ sagði Aziz í viðtalinu án þess að hafa hugmynd um hvílíkt bakslag beið hans handan við hornið sem knúði hann, allavega vonandi, til að bæta sig og verða annar maður að hluta.

Yfirgaf heimilið í tárum eftir sársaukafulla reynslu

13. janúar 2018 birtist á vefmiðlinum Babe frásögn ungrar konu sem kallar sig Grace. Hún segir frá stefnumóti sem hún fór á með Aziz þá 22 ára og hann var 34 ára. Aziz var ágengur, suðaði í henni um kynlíf og tók ekki mark á áhugaleysi hennar heldur var ýtinn og óþægilegur samkvæmt konunni sem fannst hann fara langt yfir mörk sín. Hún yfirgaf heimili hans í tárum eftir reynsluna sem hún lýsti sem sársaukafullri.

Aziz svaraði frásögninni með yfirlýsingu um að hann hefði talið að allt sem fram hefði farið væri með samþykki og á forsendum beggja aðila en kvaðst hafa tekið mark á lýsingum hennar. Hann sagðist styðja #metoo-byltinguna sem þá skall á heimsbyggðinni og að hún væri löngu tímabær. 

Ofbeldi eða grátt svæði

Miklar umræður sköpuðust um frásögn „Grace“ og hvar slíkar upplifanir staðsettu menn eins og Ansari eða stimpluðu þá. Sumir fögnuðu því að menn væru færðir til ábyrgðar fyrir að suða og pressa á konur. Þeim þótti réttast að réttast sé að skilgreina samskiptin sem kynferðisofbeldi.

Einhverjum fannst að samskipti þeirra hins vegar á óræðu og gráu svæði og vildu alls ekki að Aziz yrði slaufunarmenningu að bráð þar sem brot hans væri ekki eins gróft og manna á borð við til dæmis Harvey Weinstein, en áralanga sögu af kynferðisofbeldi hans þarf varla að tíunda og Louis CK grínista sem þá hafði um nokkurt skeið vanið sig á að fróa sér í návist kvenna og þolendur voru fjölmargir.

Tvær konur í ástríðufullu en flóknu hjónabandi

Aziz dró sig allavega að mestu í hlé eftir þetta en var með umdeilda endurkomu fyrir tveimur árum þegar hann frumsýndi nýtt uppstand á Netflix í leikstjórn Spike Jonze. Sitt sýndist hverjum um erindi hans eða hvort að hann sýndi næga ábyrgð eða á réttan hátt en hann sagði meðal annars í uppistandi sínu að hann hafi orðið hræddur í kjölfarið á greininni, niðurlægður en fyrst og fremst miður sín yfir að ónefndu konunni hafi liðið svona yfir verknaðinum.

 En hann rís upp og heldur áfram og nú hefur hann loksins sent frá sér þriðju seríu Master of None sem nefnist Moments in Love. Það er fimm þátta minisería þar sem karakter Aziz sjálfs er aðeins í bakgrunni. Hér er það besta vinkona hans Denise (Lena Waithe) sem er í öndvegi og fjalla þættirnir um hjónaband hennar og konu hennar Aliciu sem leikin er af Naomi Ackie

Hægar óklipptar og listrænar senur

Þó efnistök séu ólík á serían margt sameiginlegt með þeim fyrri, sérstaklega annarri. Kvikmyndatakan er oft óvenjuleg, senur langar, hægar og óklipptar. Þeim tekst á lágstemmdan hátt færa áhorfandann verulega nálægt hjónunum í daglegu amstri og hversdagslegum athöfnum svo tilfinningin verður að maður sé þátttakandi í lífi þeirra.

Samtöl eru raunveruleg og vel skrifuð og tilfinningar djúpar og áþreifanlegar í stundum viðburðalitlum atriðum sem segja svo fátt, en svo margt í senn þegar lesið er á milli línanna.

Hjónin glíma við ólíka upplifun á stöðu sinni í þjóðfélaginu og þrátt fyrir þá ást sem þær bera í brjósti standa þær frammi fyrir algengum glímum og spurningum, velta fyrir sér kröfum til hvor annarrar, samfélagsins og sjálfrar sín. Staðan er viðkvæm en ástin er heit.

Stórkostleg ástarsaga

Karakter Aziz sjálfs sem birtist lítillega er frekar mikill lúser sjálfur, öfugt við konurnar sem báðar eru töff. Hann er að missa hárið, klúðra ferlinum og mögulega sambandinu sínu og er einhvernveginn týndur og utangátta. Aziz virðist staðráðinn í því að mála sig ekki sem neina hetju í þetta skiptið allavega.

Hvað sem lúserum og töffurum líður var ómögulegt fyrir mína parta að hætta að horfa fyrr en ég hafði klárað síðasta þáttinn. Ég get mælt með því að sé það leikið eftir séu þurrkur við höndina því það má búast við að þræða nokkra djúpa en grárbroslega táradali áður en komist er á leiðarenda.

Hvað sem hægt er að segja um Aziz í samhengi við #metoo og brot hans gegn ónefndu konunni þá kann hann og þorir að gera öðruvísi sjónvarpsefni. Niðurstaðan er fyndin, tilraunakennd, mannleg en ljóðræn og að mínu mati ansi hreint andskoti stórkostleg ástarsaga.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Netflix bjóða Aziz áframhaldandi samstarf

Sjónvarp

Konur áttu sviðið á Emmy-verðlaununum