Kostnaður við dómsmál tvöfalt hærri en við skipun

03.06.2021 - 08:42
Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Útlit er fyrir að kostnaður menntamálaráðuneytisins við málaferli vegna skipunar ráðuneytisstjóra verði tvöfalt hærri en kostnaður við skipunina sjálfa. Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra ákvað að höfða mál vegna úrskurðar jafnréttisráðs um að hún hefði brotið jafnréttislög með skipun Páls Magnússonar, bæjarritara í Kópavogi, í stöðu ráðuneytisstjóra. Hafdís Helga Ólafsdóttir, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, vann það mál í héraði.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spurði Lilju út í kostnað vegna skipunarinnar og dómsmálsins. Í skriflegu svari ráðherra segir að kostnaður vegna ráðningarferlisins hafi verið fimm milljónir króna. Rúm hálf milljón fór í auglýsingar og hálf fimmta milljón í kostnað vegna starfa hæfisnefndarinnar. 

Dómsmálið sem rekið var fyrir héraðsdómi kostaði 8,7 milljónir króna. Þar af voru 4,5 milljónir króna vegna málsvarnarlauna lögmanns Hafdísar Helgu, sem ríkið var dæmt til að greiða. Ráðherra ákvað að áfrýja dómi héraðsdóms til Landsréttar. Kostnaður þar er áætlaður 900 þúsund til 1,2 milljónir króna. Heildarkostnaður verður samkvæmt því tæpar tíu milljónir króna.

Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði fyrir ári að menntamálaráðherra hefði brotið jafnréttislög með ráðningu Páls í embætti ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu. Hafdís Helga var meðal umsækjenda en ekki í hópi þeirra fjögurra sem hæfisnefnd mat hæfasta í starfið. Hún kærði ráðninguna til kærunefndarinnar sem mat ráðherra brotlegan. Ráðherra sagði þá mikilvægt að eyða óvissu um lagaleg álitamál og höfðaði mál til ógildingar úrskurði jafnréttisnefndar. Slík mál þarf að höfða gegn þeim sem leitaði til nefndarinnar en ekki nefndarinnar sjálfrar. Eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Hafdísi Helgu í vil áfrýjaði menntamálaráðherra málinu til Landsréttar.