Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Íslendingar ná markmiði um endurnýjanlega orku

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Árið 2020 voru 11,4% allra orkugjafa í samgöngum á Íslandi orðnir endurnýjanlegir. Þetta er í samræmi við markmið sem stjórnvöld settu sér fyrir tíu árum um að minnst 10% orkugjafa yrðu endurnýjanlegir.

Árið 2011 var hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum undir 1% hérlendis og var töluvert lægra en almennt var annars staðar.

„Orkuskipti, þar sem jarðefnaeldsneyti víkur fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum, eru nauðsynleg til að vinna gegn loftslagsvánni sem er ein af stærstu áskorunum sem mannkynið stendur frammi fyrir. Orkuskiptin leiða til orkusparnaðar, aukins orkuöryggis, gjaldeyrissparnaðar og minni losunar gróðurhúsalofttegunda“ segir í tilkynningu Stjórnarráðs Íslands.

 

Íslendingar virðast hafa tekið rafknúnum farartækjum fagnandi. Hér er næst hæst hlutfall rafmagns- og tvinnorkubifreiða í heimi, ef horft er til nýskráða bíla.

Sjá einnig: Hlutfall nýskráðra nýorkubíla næsthæst á Íslandi

Ekkert jarðefnaeldsneyti árið 2050

Stjórnvöld hafa sett sér markmið um að Ísland verði leiðandi í grænum samgöngum, með 40% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa árið 2030. Árið 2050 er svo ætlunin að samgöngur á Íslandi verði alfarið óháðar jarðefnaeldsneyti og noti þess í stað 100% endurnýjanlega orkugjafa.

Höfundur er meistaranemi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands í starfsnámi á fréttastofu RÚV.