Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ísland fjarri markmiðum ESB í úrgangsmálum

03.06.2021 - 13:20
Mynd: Rakel Steinarsdóttir / Aðsend mynd
Íslendingar eiga langt í land með að ná markmiðum Evrópusambandsins í úrgangsmálum fyrir árið 2030 eins og gert er ráð fyrir í tilskipunum ESB frá 2018. Þetta segir dósent við Viðskiptafræðideild HA sem rannsakað hefur sorpmál og úrgangsstjórnun hér á landi og borið saman við önnur Norðurlönd og önnur ríki Evrópusambandsins. 

Samkvæmt þeim markmiðum sem finna má í tilskipun Evrópusambandsins um urðun úrgangs frá árinu 2018 ber hverju aðildarríki að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til þess að tryggja að fyrir árið 2035 verði urðuð að hámarki 10% af þeim heimilisúrgangi sem fellur til í viðkomandi ríki.  
 
Þá er einnig gert ráð fyrir því að endurvinnsla heimilisúrgangs verði að lágmarki 65% sama ár. Guðmundur Kristján Óskarsson, dósent við Háskólann á Akureyri, ræddi sorpmál á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. 
 
 „Við eigum langt í land þarna. Urðunarhlutfallið er hátt, það er í kringum 60% og þurfum við að taka okkur verulega á þar. Endurvinnsluhlutfallið er um 30% og þarf að fara upp í 65%,“ segir Guðmundur og bætir við að það séu skýringar á þessu háa hlutfalli urðunar hér á landi. 

Ósennilegt að markmið náist fyrir 2035

Guðmundur bendir á að nágrannalönd Íslands brenni mun meira af sorpi en Íslendingar og þar með lækki urðunarhlutfall verulega. „Að sama skapi ef við tökum Evrópusambandið saman sem heild þá hefur urðunarhlutfallið verið á hægri niðurleið á sama tíma og brennslan farið upp.“ 
 
Rekja megi það fyrirkomulag til þess að ríkin noti sorpbrennslu til orkunýtingar en hér á landi sé ekki þörf til þess að vinna orku með sorpbrennslu. 
 
Guðmundur telur ósennilegt að Ísland nái að uppfylla skilyrði tilskipunarinnar fyrir árið 2035 en möguleiki sé fyrir hendi að fá frestun til ársins 2040. „Við þurfum í sjálfu sér ekki að ná þessum markmiðum fyrr en árið 2040 þannig að við getum keypt okkur tíma og það er miklu raunhæfara.“

Andri Magnús Eysteinsson