Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Bæjarstjóri segir fólksfækkun í Hafnarfirði tímabundna

Mynd með færslu
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Mynd: Þór Ægisson
Íbúum í Hafnarfirði hefur fækkað um rúmlega 200 íbúa frá áramótum, sem er þvert á íbúaþróun í nágrannasveitarfélögunum. Frá áramótum fjölgaði íbúum í Reykjavík um 721, Kópavogsbúum hefur fjölgað um 439 og íbúum Garðabæjar um 327, samkvæmt nýjum tölum Þjóðskrár um íbúafjölda eftir sveitarfélögum.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir að um minniháttar niðursveiflu til skamms tíma sé að ræða á meðan Hafnfirðingum hafi fjölgað jafnt og þétt síðasta áratuginn. Verið sé að greina þessar nýjustu tölur Þjóðskrár en hún telji fækkunina mögulega stafa af því að samdráttur í atvinnumálum vegna COVID-19 hafi valdið því að fjölskyldur af erlendu bergi brotnar hafi flutt til heimalandsins og færri einstaklingar tekið við húsnæðinu. Alltént standi engar íbúðir tómar í Hafnarfirði. Hún segir að í tilviki Hafnarfjarðar sé það fyrst og fremst töf á uppbyggingu nýrra hverfa sem valdi sveiflunni.

„Helsta ástæðan fyrir því að fólki hefur ekki fjölgað jafn ört í Hafnarfirði undanfarin tvö ár eins og árin á undan er hins vegar sú að fyrir þremur árum voru framkvæmdir við stór byggingarsvæði í Skarðshlíð og Hamranesi stöðvaðar, þó svo framkvæmdaleyfi væru fyrirliggjandi. Frá hausti 2016 hefur yfir 200 lóðum undir um 2420 íbúðir verið úthlutað. Uppbygging í Skarðshlíð og frekari lóðaúthlutanir þar og í Hamranesi töfðust um tvö ár vegna kærunnar um flutning raflínanna sem lágu yfir hverfunum," segir Rósa en flutningurinn var kærður vorið 2018 af Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands og Hraunavinum. 

Rósa segir að hefja hafi þurft nýtt ferli og ná samkomulagi við Landsnet um bráðabrigðaflutning. „Eftir að það náðist fór úthlutun aftur á fljúgandi ferð en þessi töf á uppbyggingu og lóðaúthlutun hefur kostað bæjarfélagið hundruð milljóna króna og auk þess haft veruleg áhrif á húsnæðismarkaðinn í bænum og á höfuðborgarsvæðið. Miðað við þá uppbyggingu sem er í gangi og er að fara af stað gerum við ráð fyrir meiri fjölgun íbúa á ári næstu árin en áætlanir gerðu ráð fyrir og að tímabundin fækkun komi fljótt til baka, væntanlega í lok þessa árs.“