Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Til skammar að fyrirtæki misnoti tækifæri og brjóti lög

Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson / RÚV
Dæmi eru um að fyrirtæki sem fengu uppsagnarstyrk, eftir að hafa sagt upp fólki í byrjun faraldursins, bjóði starfsfólkinu ekki sama starf aftur þrátt fyrir að þeim sé það skylt samkvæmt lögum. Óttast er að reynslulítið fólk verði nú ráðið í þessi störf á lægstu töxtum og ráðningarstyrkir í átakinu „Hefjum störf“ verði látnir dekka launakostnaðinn að mestu.

Fyrirtæki sem sögðu upp fólki vegna rekstrarerfiðleika í faraldrinum áttu rétt á fjárstuðningi úr ríkissjóði vegna hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

Eiga forgangsrétt að sambærilegu starfi

Í lögum af þessu tilefni kemur skýrt fram að atvinnurekendur sem þáðu uppsagnarstyrki skuli upplýsa viðkomandi launamenn verði ráðið aftur í sambærileg störf og gera þeim starfstilboð innan tólf mánaða frá uppsagnardegi. Starfsmennirnir eigi forgangsrétt að starfinu.

Fyrirtækin fari ekki að settum reglum

Fréttastofa er með gögn frá starfsmanni hótels sem var lokað í haust og honum því sagt upp í kjölfarið. Starfsmaðurinn hefur ekkert heyrt frá hótelinu sem nú hefur verið opnað aftur og honum var því ekki boðið sitt fyrra starf. „Þannig að þau fyrirtæki sem eru að gera þetta, eru náttúrulega ekki að fara eftir því sem að rætt var um í upphafi,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands.

„Einhverjir eru að leika þennan leik“

Hann telur þó að flestöll fyrirtæki fari að lögum. „En við erum að heyra um nokkur dæmi þar sem að þetta er ekki gert. Þannig að þetta virðist vera raunveruleikinn að einhverjir eru að leika þennan leik.“ Og þarna hafi hann eingöngu heyrt af fyrirtækjum í ferðaþjónustu.

Í staðinn verði ráðið reynslulítið fólk á lágum launum

Í átakinu Hefjum störf geta fyrirtæki nýtt sér ráðningarstyrki til að auðvelda þeim að ráða starfsfólk. Forsvarsmenn stéttarfélaga sem rætt var við í dag óttast að í stað þess að ráða fólk aftur í sín fyrri störf, ráði fyrirtækin reynslulítið fólk á lægstu töxtum og ráðningarstyrkir verði látnir dekka launakostnaðinn að mestu.

Segir starfsfólk í ferðaþjónustu á lægstu töxtunum

„Það hefur bara tíðkast í ferðaþjónustunni, allavega þar sem við þekkjum, að þar er fólk yfirleitt á þessum lægstu launum sem samið er um. Það er mjög lítið um yfirborganir,“ segir Björn. „Þetta fólk sem verið er að ráða það er á þessum töxtum sem við semjum um.“

Ættu að liggja þung viðurlög við þessum brotum

Það ættu að liggja þung viðurlög við því að fyrirtæki misnoti tækifæri sem þeim bjóðist og brjóti af sér um leið. „Ég tel að það sé verið að misnota ef menn hafa verið að fá styrkina til þess að segja fólkinu upp og ráða svo ekki sama fólkið aftur. Þá er verið að misnota þetta og þeim fyrirtækjum til óborinnar skammar. Það ætti náttúrulega í fyrsta lagi að taka af þeim þessa ráðningarstyrki. Og mér fyndist að það mætti sekta þá líka, bara til þess að þeir myndu eftir því að fara eftir þeim lögum og reglum sem að ætlast er til að fólk fari eftir.“