Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir fjórðungsþátttöku í íbúakosningu stórkostlega

02.06.2021 - 14:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður stýrihóps um íbúasamráð á Akureyri, segir nýafstaðna íbúakosningu um skipulagsmál á Oddeyri hafa gefist vel. Hún segir þátttökuna, sem var um 26 prósent, vera stórkostlega í svo afmörkuðu máli.

Niðurstaðan afgerandi

Tveir þriðju hlutar þeirra sem tóku þátt í ráðgefandi íbúakosningu um aðalskipulag Oddeyrar kusu með því að þar rísi þriggja til fjögurra hæða hús. Átján prósent kusu með 6-8 hæðum. Þá völdu 14 prósent tillögu sem gerir ráð fyrir 5-6 hæða húsum. Niðurstaðan var því nokkuð afgerandi.

Sjálf ánægð með niðurstöðuna 

Sóley var gestur á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun þar sem ráðgefandi íbúkosning um Oddeyrina var til umræðu. Hún hefur sjálf talað gegn því að skipulagi verði breytt á Gránufélagsreit og gleðst yfir úrslitunum. „Ég er ánægð með úrslitin. Þetta er er eins og ég vildi sjá það en mest af öllu er ég bara ánægð með hversu margir tóku þátt í kosningunni.“  

Þú ert ánægð með þátttökuna, 26 prósent, gæti ekki einhver sagt, 74 prósent bæjarbúa virðist vera alveg sama?

„Jú, það gæti einhver sagt og það er hægt að segja yfirleitt um allar kosningar. Við höfum nú ekki mikla reynslu hérna eða hér á Íslandi af íbúakosningum almennt. En eins og til dæmis í Svíþjóð er þetta heilmikið notað og þar er kjörsóknin svona upp og ofan og alls konar. Þarna er um að ræða afmarkað skipulagsmál sem mér fyndist skrítið ef hver einasti bæjarbúi hefði skoðun á. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum tóku 66% íbúa þátt og það eru kosningar sem flestir taka þátt. Það eru svona kosningar þar sem flestir taka þátt í, þannig 26% í svona afmörkuðu máli finnst mér bara stórkostlegt.“

Sjá einnig: Þátttakan ásættanleg en niðurstaðan vonbrigði

Mikilvægt að stjórnmálin taki mark á niðurstöðunni

Hún segir mikilvægt að stjórnkerfið taki mið af þeim niðurstöðum sem fram komu. „Það verður bara hver að tala fyrir sig í því máli og það á eftir að koma í ljós. Það er bara hluti af þessu ferli, það er að komast að því, vegna þess að þegar íbúar taka þátt í einhvers konar íbúasamráði þá þurfa þeir að geta treyst því að stjórnkerfið og pólitískir fulltrúar geri eitthvað með það sem þeir segja og ég hef fulla trúa á því að það sé þannig.“