Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Samherji axli ábyrgð á ákvörðunum og athöfnum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, segja mikilvægt að Samherji axli ábyrgð á eigin ákvörðunum. Samtökin hafa ekki í hyggju að refsa fyrirtækinu.

Samherji baðst um helgina afsökunar á framgöngu stjórnenda fyrirtækisins þar sem viðurkennt var að þeir hefðu gengið of langt í málsvörn sinni vegna Samherjaskjalanna.

Í grein sem birtist á vefsíðu SFS segir að samtökin geri þá kröfu að félagsmenn viðhafi góða starfshætti, bæði heima og erlendis. Það felist í stefnu SFS um samfélagsábyrgð sem fjöldi fyrirtækja innan vébanda samtakanna hafi undirritað, þar með talið Samherji.

SFS hefur ekki í hyggju að refsa Samherja, enda markmið stefnunnar ekki að vera vöndur, heldur leiðarljós fyrirtækja inn á rétta braut. „Samherji hefur birt afsökunarbeiðni vegna framferðis stjórnenda og starfsmanna í tengslum við umfjöllun fjölmiðla um áðurgreint mál. Viðkennt var að vikið var af braut. SFS telja mikilvægt að fyrirtækið axli ábyrgð á eigin ákvörðunum og athöfnum, stuðli að gagnsæjum starfsháttum og góðum samskiptum. Á þeim forsendum er unnið á vettvangi SFS og samtökin gera sömu kröfu til sinna félagsmanna,“ segir á vef SFS.

Magnús Geir Eyjólfsson

Tengdar fréttir