Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Röntgen tekur við Vagninum í sumar

Mynd: Vagninn/Röntgen / Vagninn/Röntgen

Röntgen tekur við Vagninum í sumar

02.06.2021 - 15:18

Höfundar

Eigendur öldurhússins Röntgen í Reykjavík leita á nýjar slóðir sjá um rekstur veitingastaðarins og krárinnar Vagnsins á Flateyri í sumar. Forsvarsfólk Röntgen tók formlega við rekstri Vagnsins um mánaðamótin og hafa háleit markmið fyrir sumarið.

Stefnt er að því að hafa staðinn opinn alla daga vikunnar. Boðið verður upp á fjölbreytta viðburði, til dæmis tónleika, uppistand, bingó og fleira. Þá er einnig mikil eftirvænting vegna veitingastaðarins sem verður rekinn í húsinu en spænska parið Álvaro Andrés og Inma Verdú sjá um veitingarnar og ætla að leggja áherslu á tapas að spænskum sið. 

Steinþór Helgi Arnsteinsson, einn eigenda Röntgen, er spenntur fyrir sumrinu. „Gaman að vera komin af mölinni og í eitt stærsta og glæsilegasta 200 manna þorp norðan Alpafjalla. Ég er fullur tilhlökkunar að vera með einn fremsta tónleikastað landsins hérna og líka vonumst við til þess að vera með einn af bestu veitingastöðum landsins. Mjög spennandi tímar fram undan og ég hlakka til að hitta alla hérna.”

Vagninn hefur þegar tilkynnt um fjölmargar listamenn og hljómsveitir sem koma fram í sumar og má þar nefna Valdimar og Örn Eldjárn, Lay Low, Góss, Jón Jónsson og Friðrik Dór og uppistandarana Ara Eldjárn og Jakob Birgisson. 

Þá ætlar bókabúðin á Flateyri einnig að bjóða upp á daglega viðburði í sumar og Eyþór Jóvinsson, eigandi bókabúðarinnar, segir að þar skapist vettvangur fyrir heimamenn og ferðamenn að hittast og gera eitthvað skemmtilegt saman.