Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Minkamálið kostar á sjötta milljarð íslenskra króna

02.06.2021 - 22:37
Erlent · COVID-19 · Danmörk · Minkar · Minkarækt
Mynd: EPA / EPA
Heildarkostnaðurinn við að farga öllum þeim milljónum minka sem slátrað var í Danmörku í fyrra er á sjötta milljarð íslenskra króna. Talin er hætta á að rotin hræin geti mengað jarðveg og drykkjarvatn og því þarf að ráðast í kostnaðarsamt hreinsunarstarf.

Síðastliðið haust kom upp grunur um kórónuveirusmit í minkum í Danmörku. Stjórnvöld gáfu út þau boð að fella ætti allan minkastofn landsins til að reyna að sporna við útbreiðslu. Milljónum minka var lógað, minkabændur voru mjög ósáttir og stjórnvöld hafa boðað skaðabætur til bændanna fyrir á fimmta hundrað milljarða íslenskra króna. 

Og það er ekki eini kostnaðurinn sem fellur til vegna minkamálsins svokallaða. Urðun á milljónum minkahræja gekk ekki sem skyldi svo nú er verið að grafa þá upp aftur. 

Það er vegna þess að rotin hræin hafa mengað jarðveginn svo mjög að hætta er talin á að mengunin geti borist í grunnvatn. Því þarf nú að grípa til hreinsunaraðgerða sem munu taka nokkur ár. 

Ef þetta væri dæmi í stærðfræðibók myndi það líta einhvern vegin svona út: 
Það kostaði um 1,1 milljarð íslenskra króna að urða minkahræin á sínum tíma. Það kostaði um 1,45 milljarða að að grafa þau öll upp aftur og koma þeim í brennslu. Áætlaður kostnaður við að hreinsa jarðveg og vatn í nágrenninu næstu fimm árin er svo næstum 3 milljarðar. Samanlagt kosta minkaaðgerðir ríkisstjórnarinnar um 5,5 milljarða íslenskra króna. 
 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Grafík

Í umfjöllun danska ríkisútvarpsins um málið er fullyrt að danska ríkisstjórnin hefði getað sparað ríkinu stórfé með því að láta sorpbrennslustöðvar alfarið um að brenna hræin. 

Enda stendur ekki á gagnrýni stjórnarandstöðunnar, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði.