Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Matargate“ veldur forsætisráðherra Finna vandræðum

02.06.2021 - 17:10
Mynd: Twitter / Twitter
Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, ætlar að endurgreiða um tvær milljónir króna fyrir mat sem sendur hefur verið í bústað forsætisráðherra í Helsinki. Málið hefur valdið Marin vandræðum en það kom upp örfáum dögum áður en sveitarstjórnarkosningar verða.

Heimsathygli vegna fjölda ungra kvenna í ríkisstjórn

Sanna Marin tók við forsætisráðherraembættinu í desember 2019, þá 34 ára gömul. Ríkisstjórn hennar vakti heimsathygli vegna fjölda ungra kvenna sem urðu ráðherrar. Marin hafði það orð á sér að tala opinskátt um hlutina og ganga hreint til verks. Góður árangur Finna í baráttunni við kórónuveiruna hefur vakið athygli og almennt farið gott orð af Marin.

Upplýst um ókeypis mat

Það kom því á óvart þegar dagblaðið Iltalehti upplýsti að hún og fjölskyldan hefðu fengið ókeypis mat sendan í bústað forsætisráðherra. Mest mun þetta hafa verið morgunverður. Þetta tíðkaðist í tíð fyrirrennara Sönnu Marin en nú þegar málið er komið í hámæli hefur verið bent á að forsætisráðherra verði í það minnsta að greiða skatt af þessum fríðindum. Óvíða er spilling minni en í Finnlandi og Finnum er annt um að þjóðfélagið sé laust við spillingu.

„Matargate“ skyggir á kosningabaráttu

,,Matargate" eins og málið er kallað í finnskum fjölmiðlum hefur því skyggt á kosningabaráttuna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 13. júní. Sjálf segir Marin að hún hafi talið að ókeypis morgunmatur fylgdi búsetunni í forsætisráðherrabústaðnum, hún hafi ekki haft frumkvæði að þessu fyrirkomulagi. Hún vilji ekki að vafi leiki á heiðarleika hennar og hún hafi því ákveðið að greiða að fullu fyrir matinn frá embættistöku, eins og hún sagði í viðtali við finnska ríkissjónvarpið YLE.