Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Mafíuforingi laus úr fangelsi

02.06.2021 - 05:17
epa09241057 (FILE) - Giovanni Brusca (C) is led off by police following his interrogation in Palermo, Sicily, Italy, 21 May 1996 (issued 01 June 2021). Brusca, 64, was released from Rome's Rebibbia prison on 31 June 2021 after 25 years in jail, having served all but 45 days of his sentence. Brusca was arrested in May 1996 and sentenced to life for over 100 murders, including that of anti-Mafia prosecutor Giovanni Falcone, his wife Francesca Morvillo and three police officers in May 1992.  EPA-EFE/LANNINO BEST QUALITY AVAILABLE
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Mafíuforinginn Giovanni Brusca, einnig kallaður slátrarinn, losnaði úr fangelsi í vikunni. Hann sat inni í 25 ár fyrir þátt sinn í yfir hundrað morðum, þar á meðal fyrir morðið á saksóknaranum Giovanni Falcone. Hann verður á skilorði næstu fjögur ár. 

Afkomendur fórnarlambanna eru æfir yfir því að Brusca skuli vera laus úr haldi. Fréttastofa BBC hefur eftir Tinu Montinaro, ekkju eins fórnarlambanna, að hún sé yfirvöldum sárreið. Enn séu engin svör komin um morðið á eiginmanni hennar 29 árum eftir það og maðurinn sem rústaði fjölskyldu hennar sé laus úr haldi, sagði Montinaro. Eiginmaður hennar var lífvörður Falcone.

Brusca viðurkenndi að hafa sprengt kraftmikla sprengju sem varð Falcone að bana, ásamt eiginkonu hans og þremur lífvörðum. Sprengjunni var komið fyrir undir vegi nærri Palermo. Tveimur mánuðum síðar var starfsbróðir Falcone, Paolo Borsellino, drepinn, en þeir sérhæfðu sig í málum tengdum ítölsku mafíunni. Árásirnar vöktu mikla reiði á Ítalíu, og urðu til þess að lög gegn mafíunni voru hert. 

Hrottalegt morð á ungum dreng

Eins og áður segir viðurkenndi Brusca þátt sinn í yfir hundrað morðum. Eitt þeirra allra hrottalegasta var morð á ellefu ára syni mafíósa sem hafði svikið hann. Drengnum, Giuseppe Di Matteo, var rænt og hann pyntaður áður en hann var kyrktur. Lík hans var svo leyst upp í sýru.

Þegar hann var handtekinn árið 1996 ákvað hann að bera vitni gegn öðrum mafíósum gegn því að fá refsingu sína mildaða. Hann hjálpaði til við að hafa uppi á gangsterum sem frömdu nokkrar árásir á níunda og tíunda áratugnum.
Ítalskir stjórnmálamenn hafa látið í sér heyra eftir að Brusca losnaði úr fangelsi. Matteo Salvini, leiðtogi Fylkingarinnar, sagði það ekki réttlætið sem Ítalir eiga skilið að Brusca sé laus eftir aldarfjórðung í fangelsi. Enrico Letta, leiðtogi Lýðræðisflokksins, sagði í viðtali við ítalska útvarpsstöð í gær að þetta væri eins og að vera kýldur í magann.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir