Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Íslandsbanki metinn á 155-242 milljarða króna

02.06.2021 - 07:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Mikill munur er á mati söluráðgjafa og greinenda við einkavæðingu Íslandsbanka á því hversu verðmætur bankinn sé. Greiningarfyrirtækið Jakobsson Capital metur bankann á 155-218 milljarða króna en ráðgjafafyrirtækið Fossar markaðir metur hann á 222-242 milljarða króna.

Þetta kemur fram í frétt Markaðarins, fylgirits Fréttablaðsins, í dag. Þar kemur jafnframt fram að íslensk og erlend fjármálafyrirtæki sem veita ráðgjöf við sölu á hlut ríkisins gera ráð fyrir aukinni arðsemi í rekstri bankans á næstu árum. Þannig verði 16,5-19 milljarða króna hagnaður á rekstri Íslandsbanka árið 2023. 

Jakobsson Capital og Fossar markaðir eru einu fyrirtækin sem setja verðmiða á bankann. Sjö önnur bera saman afkomu og rekstraráætlanir við aðra innlenda og erlenda banka. Samkvæmt Fréttablaðinu má áætla, miðað við það, að markaðsvirðið sé nokkuð undir bókfærðu eigin fé bankans sem er 185,5 milljarðar króna. Fyrirtækin sjö eru meðal annarra Barclays, Citi, JP Morgan, Landsbankinn og Arion banki.