Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Innri og ytri geislun slær silfri á hraunið

02.06.2021 - 20:56
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarsson - RÚV
Eldgosið við Fagradalsfjall hefur glatt öll skynfæri landsmanna undanfarnar vikur og mánuði. Eldgosið er í sífelldri þróun og hefur tekið nokkrum breytingum frá því að það hófst að kvöldi 19 mars. Silfurgrá slikja á gígnum hefur vakið athygli seinustu daga. Skýringuna er að finna í geislun sem verður í kvikunni þegar hún kemst í snertingu við andrúmsloftið.

Fyrirbærið er útskýrt á Facebook síðu Eldfjallafræði og náttúruvárhópi Háskóla Íslands í morgun. 

Stutta skýringin er sú að allra ysta skinnið á skorpunni hefur þannig ljósbrotseiginleika að samspil ytri og innri geislunar gefur því silfurgráan lit. Ytri geislunin er að sjálfsögðu dagsbirtan/sólgeislun og innri geislunin er kemur frá heitum kjarna hraunsins. Þannig að svona silfurgrár litur á helluhraunum, kvikustrókahraunum eða hraunskellum einfaldlega gefur til kynna að þessi fyrirbæri eru nýmynduð, með tiltölulega þunna skorpu mjög heitan kjarna. Oft er þetta jafngildi helluhrauns sem er ennþá í myndun.

Þegar glóandi kvikan kemur upp á yfirborð og í snertingu við andrúmsloft myndast skán á hraunsepanum svokallaða. Skánin er í upphafi deig og blöðrótt og samfara flæði hraunsins þejast þessir separ út í allar áttir. Þenslan er mest lárétt og blöðrurnar teygjast í þá átt sem hraunið rennur. Ef hraunið er kyrrstætt myndast skán og myndar þunna glerhúð. Glerhúðin hefur áhrif á ljósbrot hraunsins.  Nánar má lesa um þetta ferli í færslu hópsins hér að neðan. 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV