Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Handunnið úr gögnum leghálssýnatöku

Handvinna þarf úr upplýsingum í tengslum við sýnatöku leghálskrabbameinsskimana. Ekki er hægt að samkeyra upplýsingar um fyrri niðurstöður úr gömlum úr sér gengnum gagnagrunni. Forstjóri heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir að ekki verði hægt að laga kerfið fyrr en á seinni hluta ársins.

Mikil óánægja hefur ríkt vegna yfirfærslu leghálsskimana frá Krabbameinsfélagi Íslands yfir til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Heilsugæslan ákvað að semja við danska rannsóknarstofu til að gera HPV greiningar og frumuskoðun sýna í stað þess að semja við Landspítalann um verkið og það hefur tafið úrlausn mála. Þegar skimanirnar fóru frá Krabbameinsfélagi Íslands voru um 2400 sýni sem átti eftir að greina.

Enn hefur ekki tekist að vinna niður þennan kúf og tæknilegir erfiðleikar tefja úrvinnslu sýna. Nú er verið að endurskoða þessa ákvörðun í heilbrigðisráðuneytinu en óánægjan á meðal kvenna magnast. Tæplega 15 þúsund manns hafa skráð sig í hóp á Facebook þar sem rætt er til dæmis um miklar tafir við að fá niðurstöður úr skimunum og ýmiskonar óreiðu á framkvæmdinni. 

Bíður enn niðurstöðu úr sýni sem var tekið í nóvember

Erna Bjarnadóttir stofnaði hópinn. Hún segir að konur þurfi að bíða eftir niðurstöðum úr sýnatökum í allt að 12 til 16 vikur. Sú bið sé óbærileg fyrir þá sem eiga í hlut.

„Þegar við erum til dæmis með dæmi eins og konu sem hefur greinst þrisvar með krabbamein og bíður enn eftir svari úr skimun sem hún fór fyrst í 27. nóvember, þá er þetta ekki eins og þetta á að vera,“ segir Erna.

Flóknara en búist var við

Óskar Reykdalsson, forstjóri heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir þennan langa biðtíma óásættanlegan. Það fylgi því erfiðleikar að færa starfsemina frá Krabbameinsfélaginu. Verkefnið hafi verið flóknara en búist var við. Til að mynda þurfi að handvinna alla gagnafærslu hjá konum sem eiga sér sögu um krabbamein.

„Þessi vinnsla gengur mjög auðveldlega þegar engin saga er fyrir. Þegar konurnar eru frískar og það er engin saga í heilsufarssögunni en þegar eitthvað er þá þarf að handvinna þetta allt saman til að fara inn í gömlu skimunarskrána sem er svolítið þreytt og þarf að endurnýja. Við vorum bjartsýn á að það tæki ekki langan tíma en það er erfitt og er enn þá verið að þarfagreina hvernig á að vinna þetta mál,“ segir Óskar.

Nýtt kerfi líklega ekki klárt fyrr en í haust eða vetur

Til stendur að nota sama tölvukerfi og hefur verið notað í tengslum við bólusetningar fólks í COVID-19 faraldrinum til að leysa þetta kerfi af hólmi. Einhver bið verður hins vegar á því að það komist í gagnið.

„Ég held því miður að það taki lengri tíma en við þorðum að vona. Þarfagreiningin er í gangi núna og það gæti tekið sumarið, og svo forritun út frá því og svo er hægt að vinna  á skilvirkari og hraðari hátt á eftir,“ segir Óskar.

Erna gagnrýnir harðlega að rannsókn sýna hafi verið færð út fyrir landsteinana. Það rjúfi tengsl á milli lækna og rannsakenda í meðferð sýna og úrvinnslu þeirra. 

Erna og Óskar ræddu málin í Kastljósi kvöldsins. Þáttinn má sjá hér að ofan.