Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Biden minntist fjöldamorðanna í Tulsa

02.06.2021 - 01:38
epa09242090 US President Joe Biden waves as he walks on the Ellipse as he returns to the White House from Tulsa, Oklahoma; in Washington, DC, USA, 01 June 2021.  EPA-EFE/Yuri Gripas / POOL
 Mynd: EPA-EFE - ABACA PRESS POOL
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, var meðal þeirra sem hélt ræðu á hundrað ára minningarathöfn fjöldamorðanna í Tulsa í Oklahoma í gær. Hann varð um leið fyrsti Bandaríkjaforsetinn til að minnast ódæðisins. Um 300 svartir Bandaríkjamenn voru myrtir af æstum múg hvítra manna, og nærri 10 þúsund manns misstu heimili sín.

Biden benti meðal annars á það að ekki sé hægt að kalla þetta óeirðir, heldur hafi þetta verið fjöldamorð. Ódæðið sé með því versta í sögu Bandaríkjanna, en ekki það eina. Þá sagði hann að um leið og hryllingnum lauk hafi verið unnið hart að því að eyða öllum minningum um það. Lengi vel hafi ekkert verið minnst á það í skólabókum í Tulsa, hvað þá annars staðar í Bandaríkjunum, hefur AFP fréttastofan eftir Biden.

31. maí árið 1921 mætti fjöldi svartra manna í dómshúsið í Tulsa til að standa með ungum svörtum manni sem var sakaður um að hafa ráðist á hvíta konu. Þar mætti þeim hundruð hvítra Tulsa-búa. Allt sauð upp úr og einhverjum skotum var hleypt af, og flýðu svörtu mennirnir aftur í hverfið sitt, Greenwood. Daginn eftir, 1. júní 1921, æddi hópur hvítra manna í Greenwood, rændi úr verslunum og kveikti í hverfinu. Fjölda verslana og þjónustu var að finna í hverfinu á þessum tíma, sem þá var kallað svarta Wall Street.

Rannsóknarnefnd sem skipuð var fyrir tuttugu árum komst að því að yfirvöld í Tulsa hafi vígbúið einhverja af mönnunum sem réðust inn í hverfið þennan hörmulega dag. Borgarstjóri Tulsa baðst í vikunni formlega afsökunar á því að borgaryfirvöld hafi ekki verndað samfélagið.

Rannsóknarnefndin lagði til að íbúum Greenwood yrðu greiddar bætur. Það hefur hingað til ekki verið gert og minnstist Biden ekkert á það í ræðu sinni. Hann sagði þó að einhvern tímann verði uppgjör. Aðeins sé þó hægt að gera upp fortíðina og forðast mistök hennar með því að rifja hana reglulega upp, eins sársaukafullt og það kann að vera. Í þögninni risti sárin dýpra, hefur AFP eftir Biden.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV