Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Það vorar hratt í ferðaþjónustunni“

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Það vorar hratt í íslenskri ferðaþjónustu og hraðar en menn bjuggust við. Markaðsherferðir miða nú að því að fá hingað ferðamenn sem dvelja lengur og eyða meiri peningum meðan á dvölinni stendur. Þetta segir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustufyrirtækja.

 

Arður í krónum talinn, að frádregnum öllum útlögðum kostnaði í rekstri íslenskrar ferðaþjónustu, var lægri en menn vonuðust til fyrir Covid. Mikið fjármagn var lagt í innviðauppbyggingu og ferðaþjónustufyrirtækin skuldsettu sig til að mæta stóraukinni eftirspurn. Þau voru ekki farin að njóta blómanna þegar faraldurinn braust út og allt fraus. 

Jóhannes Þór Skúlason er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Hann segir að endurlífgun og bataferli ferðaþjónustunnar hér á landi sé hraðara en búist var við. Fyrst og fremst vegna þess að nú sé hægt að taka við bólusettum Bandaríkjamönnum. Nú vilji ferðaþjónustufyrirtækin fá fólk sem stoppi lengur og eyði meiri peningum.

„Þannig verða verðmætin til fyrir samfélagið sem skila sér svo á endanum í kassann. Með auknum gæðum og fagmennsku þá munu fyrirækin ná að þróast og styrkjast og stækka.“

En var Covid tíminn nýttur til að endurhugsa íslenska ferðaþjónustu og hvers lags ferðamanna eigi helst að höfða til?

„Í grunninn þá dregur áfangastaðurinn Ísland að sér ákveðinn hóp ferðamanna. Fólk kemur hingað að stærstum hluta til að skoða náttúru og ferðast um landið, keyra hringveginn og svo framvegis eins og við þekkjum. Það mun ekki breytast í grunninn. Við verðum áfram samskonar áfangastaður og þess vegna með svipaðan markhóp.“

Talsverð vinna hafi verið lögð í nýjar markaðsherferðir og vöruþróun.

„Það sem við fókuserum á, bæði fyrirtækin og stefnumótun stjórnvalda, er að fá meiri verðmæti út úr greininni frekar en fjölda og ég held að það muni halda áfram vegna þess að það er einfaldlega hinn sjálfbæri vöxtur þessarar atvinnugreinar sem mun skipta máli inn í framtíðina.“ 

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV