Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Segir að brugghúsmálið sé orðið ansi þunnt

01.06.2021 - 22:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segist hafa gefið mikið eftir til að hægt verði að afgreiða frumvarp hennar um breytingar á áfengislögum. Málið hefur til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd síðan í febrúar.

Frumvarpið gerir meðal annars ráð fyrir að lítil brugghús fái að selja áfengi í lokuðum umbúðum á framleiðslustað.

Málið er umdeilt og bárust 40 umsagnir til allsherjar- og menntamálanefndar. Í umsögn ÁTVR segir að forsendur fyrir rekstri ÁTVR muni að öllum líkindum bresta ef frumvarpið verður samþykkt. Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök íslenskra handverksbrugghúsa fagna hins vegar frumvarpinu.

Allsherjar- og menntamálanefnd á enn eftir að afgreiða frumvarpið til annarrar umræðu.

„Þetta mál er mikilvægt fyrir handverksbrugghúsin um allt land, sérstaklega fyrir þetta sumar. Þetta er búið að vera lengi í þinginu. Ég kom fyrst fram með þetta mál í byrjun síðasta árs þannig að það er orðinn talsverður tími sem þetta hefur verið í umfjöllun,“ segir Áslaug.

Áslaug segist hafa sýnt mikinn samningsvilja til að hægt verði að afgreiða málið fyrir þinglok.

„Það er nú orðið ansi þunnt brugghúsmálið ef svo má kalla. Það er lítið eftir af því miðað við hvernig ég lagði það fyrst fram, þannig að ég held að ég hafi gefið mikið eftir nú þegar,“ segir Áslaug.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV