Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lögreglan fær 900 milljónir til að stytta vinnuvikuna

Mynd með færslu
 Mynd: Hulda Geirsdóttir - RÚV
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, segir að embættið fái níu hundruð milljónir til að mæta styttingu vinnuvikunnar. Samkomulag hafi náðst við dómsmálaráðuneytið og lögreglustjórar séu að byrja að ráða lögreglumenn.

Vilyrði komið fyrir peningum

Sigríður segist skilja vel að lögreglumenn hafi haft áhyggjur en nú sé lending komin í málið. 

„Þannig að það er komið vilyrði fyrir peningunum og lögreglustjórar eru byrjaðir að auglýsa og fá fólk inn, þannig að þetta er allt að ganga upp.“

Talað hefur verið um að bæta þurfi við 75 lögreglumönnum. Verða ráðnir svo margir?

„Ég er ekki alveg með heildartöluna á því. Þarfagreiningin var byggð á tölum frá lögreglustjórunum og lögreglustjórarnir hafa verið með beina aðkomu inn í fjármálaráðuneytið að ræða þessi mál á undanförnum vikum. Ég er ekki alveg með heildartöluna en þessar 900 milljónir eru í samræmi við þetta skapalón frá fjármálaráðuneytinu. Ekki er verið að greiða fyrir meiri aukavinnu en verið að greiða fyrir styttingu vinnutímans þannig að við séum að jafnaði með 8 tíma vinnudag vaktavinnufólks.“

 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV