Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Klúður við förgun minka kostar Dani milljarða

01.06.2021 - 06:58
epa08807895 Killed minks are buried at Karup Military Airport in Jutland, Denmark, 08 November 2020. To prevent infection from spreading from the animals, the animals are encapsulated in layers of calcium. So far, almost 1, 9 million mink have been killed. All mink in Denmark are killed in connection with Covid-19, due to fear of mutation in coronavirus.  EPA-EFE/Bo Amstrup  DENMARK OUT
 Mynd: EPA
Útlit er fyrir að urðun milljóna minkahræja verði eitt dýrkeyptasta mengunarslys Danmerkursögunnar, að mati prófessors við Tækniháskóla Danmerkur. Rannsókn fréttamanna Danmarks Radio leiðir í ljós að danska ríkið hefði getað sparað sér milljarða króna, hefðu stjórnvöld bara flýtt sér aðeins hægar.

 

Heildarkostnaðurinn við að farga öllum þeim milljónum minka sem slátrað var í Danmörku í fyrra af ótta við útbreiðslu stökkbreyttrar kórónaveiru sem fannst í minkabúum verður að líkindum um 5,5 milljarðar króna þegar upp er staðið. Samkvæmt frétt Danmarks Radio hefði mátt spara mikinn meirihluta þeirrar fjárhæðar með því einu að flýta sér aðeins hægar.

Sorpbrennslustöðvar Danmerkur - sem jafnframt eru fjarvarmaveitur - hefðu nefnilega auðveldlega annað brennslunni strax í upphafi. Yfirvöld vanmátu hins vegar afkastagetu þeirra og skelltu skollaeyrum við upplýsingum stjórnenda þeirra um hið rétta.

Þess vegna voru milljónir minka urðaðir í allt of grunnum gröfum í fyrra og svo grafnir upp aftur í vor til að fara með hræin í brennslu. Það kostaði jafnvirði 1.100 milljóna íslenskra króna að urða þá og 1.450 milljónir að grafa þá upp aftur og koma þeim í brennslu.

Hreinsun á menguðum jarðvegi dýrasti pósturinn

En þar með er ekki allt upp talið, segir í frétt DR, því rotin hræin hafa mengað jarðveginn svo mjög að hætta er talin á að mengunin geti borist í grunnvatn. Því þarf nú að grípa til hreinsunaraðgerða sem munu taka nokkur ár. Gert er ráð fyrir að sú vinna muni kosta um þrjá milljarða.

„Þetta eru heilmiklir peningar," hefur DR eftir Poul Løgstrup Bjerg, prófessor við umhverfisfræðadeild Tækniháskóla Danmerkur. Hann segir að stórar jarðvegshreinsanir vegna einstakra mengunarslysa nú til dags kosti að jafnaði á bilinu 400 - 1.000 milljónir.

Minkamengunin sé hins vegar meira í ætt við það sem kallað hefur verið kynslóðamengun, og er yfirleitt rakin til stórra verksmiðja frá sjötta og sjöunda áratugnum, þegar lítið sem ekkert var hugað að mengunarvörnum og hugsanlegum afleiðingum þess að eiturefni kæmust út í náttúruna.