Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hrauntunga ógnar vestari varnargarðinum

Mynd: RÚV / RÚV
Talsverður gangur hefur verið í gosinu í Geldingadölum í gærkvöld og nótt. Seint á tólfta tímanum í gærkvöld mátti sjá hvar rauðglóandi hrauntunga tók að vella inn í myndina í beinu streymi frá rúv-vélinni á Langahrygg, úr norðaustri til suðvesturs, og nú er svo komið að hrauntungan er komin alveg að vestari varnargarðinum sem reistur var í sunnanverðum Meradölum. Fari svo fram sem horfir mun hraun renna yfir varnargarðinn áður en langt um líður og þaðan niður í Nátthaga.

Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að svo virðist sem hraunstraumurinn hafi breyst nokkuð í nótt. „Það sem við bjuggumst við að færi úr Geldingadölum og þarna niður í gegnum skarðið, það gerðist ekki, heldur varð straumurinn meiri úr hinni áttinni og niður í nafnlausa dalinn í áttina að varnargarðinum.“ 

Hraunstraumurinn virðist renna í austur frá gígnum, krækja fyrir útsýnishólinn sem vinsælastur hefur verið meðal gosfara og renna þaðan í vestur niður hliðinina, meðfram hrauninu sem fyrir er. Böðvar segir ekki útlit fyrir að gosið sjálft sé að breytast, það líti út fyrir að vera svipað og verið hefur. Hann segir erfitt að segja fyrir um hvort og þá hvenær hraunið fari yfir vestari varnarvegginn.

- En þegar og ef það gerist þá stefnir allt í eina átt, eða hvað?

„Já er það ekki? Til sjávar,“ segir Böðvar Sveinsson.