Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hraunflæði ógnar gönguleiðinni

Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun / RÚV
Gosið í kröftugasta gígnum á Reykjanesskaga er svo öflugt að síðasta hluta aðalgönguleiðarinnar hefur verið lokað. Eldfjallafræðingur segir að það vanti tvo til þrjá metra í að hraun renni yfir skarð á leiðinni. 

Götuslóðar við gosstöðvarnar mega sín lítils fyrir hraunkvikunni. Hér sést byrjunin á slóðanum inn í Meradali sem björgunar- og vísindafólk notaði. Nú er hann fyrir bí. 

Sé litið frá Meradölum í vesturátt að gosstöðvunum ber gíginn hæst og ekki er lengra síðan en 13. apríl síðan byrjaði að gjósa á þessum stað. 

Og ekki að furða að gígurinn hækki hratt því reiðinnar býsn af kviku brýst þar upp og steypist niður sem hraunfoss og -flúðir. Það sem við sjáum er þó aðeins brot af því sem upp kemur. 

„Aðalhraunið sem rennur úr gígnum er undir gígnum og þar rennur annars vegar inn í Meradal syðri þarna í stóru dyngjuna sem er komin þar og svo hins vegar inn í Geldingadali,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. 
 
Eldgosið sést vel frá Langahrygg og Stóra Hrúti. Stóri Hrútur er nú vinsælasti lendingarstaður útsýnisþyrlna. 

Ekki er ólíklegt að Langihryggur taki við göngufólki því leiðin sem nú er farin lokast brátt. 

Búið er að setja gulan borða í skarðið svo ekki sé hægt að ganga síðasta hluta gönguleiðarinnar þaðan sem besta útsýnið er. Sumir virtu þessar lokanir að vettugi í dag. 

Syðsti hluti Geldingadala er að fyllast af hrauni sem brátt flæðir yfir skarðið og ofan í Syðri-Meradal sem oft var nefndur Nafnlausi dalur. 
 
Vestari varnargarðurinn í þeim dal heldur enn hrauninu frá því að renna niður í Nátthaga. Nokkrir moldarhraukar er eina sem sést af eystri varnargarðuinum. 

Og eins og sést er leiðin greið niður í Nátthaga. Veður hefur hamlað því að hægt sé að mæla hraunflæðið. Tvær vikur eru síðan síðast var mælt. 

Nú stöndum við hérna niður í Nátthaga, hvað skrýður hraunið langt fram hér?

„Það skrýður nú bara hægt. Það er að safna í poll núna eins og sést á bakið í glóð. Það svona mjatlast ofan í dalinn. Það sem þarf að gerast er að það myndist smá pollur hérna svo hraunið geti haldið áfram að skríða fram dalinn.“

Ármann segir erfitt að segja til um hvenær hraun flæðir yfir skarðið á gönguleiðinni. 

„Það er komið mjög hátt, á kannski eftir einhverja tvo, þrjá metra áður en það fer yfir skarðið. Og svona eins og þetta er búið að vera, þetta gengur í rykkjum, svona safnar í polla og svo gefur pollurinn sig og þá geta svona hlutir gerst ansi hratt.“

Það gætu verið vika tíu dagar í það, segir hann, en það getur líka orðið í nótt eða fyrramálið.