Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fundar með varnarmálaráðherra Danmerkur í vikunni

01.06.2021 - 19:50
Mynd: Stjórnarráðið / Stjórnarráðið
Dönsk og bandarísk yfirvöld hafa enn ekki gefið neinar skýringar á njósnum á evrópskum embættismönnum um strengi sem flytja netumferð. Utanríkisráðherra fundar með varnarmálaráðherra Danmerkur í vikunni vegna málsins. 

Víða um Evrópu er beðið eftir útskýringum frá stjórnvöldum í Danmörku og Bandaríkjunum á því hvers vegna þau fyrrnefndu liðsinntu við njósnir á embættismönnum í Þýskalandi, Frakklandi, Noregi og Svíþjóð. Danska ríkisútvarpið greindi frá njósnamálinu á sunnudag, eftir að hafa rætt við níu heimildarmenn innan leyniþjónustu danska hersins. Svörin hafa ekki borist.

Utanríkisráðuneytið hér á landi óskaði eftir upplýsingum um það hvort njósnað hafi verið um Íslendinga með þessum hætti. Guðlaugur Þór Þórðarson, ttanríkisráðherra, á símafund með Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, á allra næstu dögum þar sem málið verður rætt. 

Mynd með færslu
Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur. Mynd: K. Navntoft - DR

Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna hleraði samskipti ráðamanna í Þýskalandi, Frakklandi, Noregi og Svíþjóð með vitund og vilja leyniþjónustu danska hersins. Þetta var gert um strengi eða kapla sem flytja netumferð. 

Guðlaugur Þór segir mikilvægt að öll spilin verði lögð á borðið og að upplýst verði hvað hafi verið á ferðinni í málinu í Danmörku. Samskipti ríkja, og sérstaklega vinaþjóða, byggist á trausti. Til þess að það geti áfram ríkt þurfi Danir að koma hreint fram og skýra málið. „Því að þetta er ekki ásættanlegt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið,“ segir hann. 

Telur netöryggismál ekki hafa verið tekin nógu föstum tökum

Hvað netöryggismál varðar, þá kveðst Guðlaugur Þór hafa lagt á það áherslu að þau séu tekin föstum tökum. „Það hefur verið mín skoðun að við höfum ekki gert það og ég hef marg oft lýst því yfir. Í minni tíð hafa verið stigin mjög ákveðin skref, meðal annars með þvi að stofna sérstaka deild á varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins sem fer með þessi mál.“ Þá sé núna fyrir þinginu frumvarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra þar sem tekið sé sérstaklega á þessum málum. „Þetta eru alvarleg mál, þau eru til staðar og við erum ekkert í annarri stöðu en aðrar þjóðir og við þurfum að bregðast við því.“ 

Aðeins lögregla má hlera á Íslandi

Að sögn Guðmundar Arnars Sigmundssonar, forstöðumanns CERT-ÍS, netöryggissveitar Póst- og Fjarskiptastofnunar, þá gæti mál sem þetta ekki komið upp hér á landi. Fjarskiptalög séu skýr og enginn hafi heimild til að hlera samskipti nema lögregla við rannsókn sakamála, að undangengnum dómsúrskurði. Sæstrengur liggur frá Íslandi til Danmerkur og um hann fer netumferð. Í íslenskri lögsögu gilda um hann íslensk lög. „En hvað tekur við á hinum endanum, það er utan okkar lögsögu og við höfum í raun engin ráð til að setja einhverjar kröfur á umferð sem er meðhöndluð þar.“

Mynd með færslu
Guðmundur Arnar Sigmundsson, forstöðumaður CERT-ÍS, netöryggissveitarinnar hjá Póst- fjarskiptastofnun.  Mynd: Þór Ægisson - RÚV

Þess má geta að málið er ekki á borði netöryggissveitarinnar, sem er borgaraleg stofnun sem hefur það hlutverk, meðal annarra, að hjálpa til við að fyrirbyggja brot hér á landi.

Hvernig getur fólk varið sig gegn hlerunum? „Það er ekkert kannski á allra vitorði að margar almennar aðferðir til að skiptast á upplýsingum, almennur tölvupóstur eða símtöl eða smáskilaboð, þau eru ekki dulkóðuð samskipti og tæknilega framkvæmanlegt að grípa þær upplýsingar og lesa eða hlusta á hvað fer fram. Þannig að þeir sem að meta það sem svo að það sé mikilvægt að heyrist ekki hvað þeir eru að segja sín á milli ættu að koma sér upp end-to-end, svokölluðum dulkóðuðum samskiptarásum,“ segir Guðmundur Arnar. 

Málið gæti grafið undan trausti á netsamskiptum 

Netöryggissveitinni hafa ekki borist neinar formlegar upplýsingar um málið, enda, eins og áður segir, er það ekki á hennar borði. Þar á bæ er þó fylgst með þróun málsins. Guðmundur Arnar segir að afhjúpunin geti grafið undan trausti á rafrænum samskiptum, ef rétt reynist. „Óháð því hvernig lagaumgjörð er í kringum svona mál erlendis þá viljum við að fólk geti nýtt sér rafræn samskipti og treyst þeim samskiptamátum til hins ítrasta.“