Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Engin sýni sem send eru út hafa týnst eða eyðilagst

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Engin sýni sem send hafa verið til Danmerkur til skimunar fyrir leghálskrabbameini hafa týnst eða eyðilagst. Heilbrigðisráðherra segir að ferlið gangi betur með hverri vikunni sem líður, en þingmaður Viðreisnar segir málið allt einkennast af flani.

Leghálsskimanir færðust frá Krabbameinsfélaginu til Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu um síðustu áramót. Ákveðið var að senda sýnin til Danmerkur til veiru- og frumugreiningar, en forráðamenn Landspítalans hafa sagt að spítalinn geti tekið að sér slíkar rannsóknir. Formaður Félags rannsóknarlækna sagði í fréttum fyrr á árinu að meiri líkur séu á að eitthvað fari úrskeiðis þegar sýnin eru send utan til greiningar.

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, spurði heilbrigðisráðherra á Alþingi í gær hvort halda eigi áfram þeirri vegferð að senda sýni út til greiningar.

Þykir leitt að yfirfærslan var ekki hnökralaus

„Það gengur vel að senda sýni til Danmerkur og engin sýni hafa týnst eða eyðilagst á vegum heilsugæslunnar. Það ferli sem nú stendur yfir gengur því betur með hverri vikunni sem líður. Mér þykir það hins vegar afskaplega leitt að þessi yfirfærsla skyldi ekki hafa gengið sem skyldi. Ég er mjög meðvituð um hversu mikilvægt það er að þjónusta af þessu tagi sé örugg og hnökralaus,“ svaraði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar.

Hanna Katrín sagði það vissulega jákvætt að ferlið gangi betur, en spurði í kjölfarið af hverju lagt var upp með að senda sýni út til að byrja með þegar embætti landlæknis hefði staðfest það að Landspítalinn gæti sinnt þessum rannsóknum.

„Þetta er flan. Allar vísbendingar og orðræða langflestra fagaðila og reynsla kvenna leiðir það í ljós. Læknar hafa lýst ákveðnum vandkvæðum við það rof sem verður á þjónustunni við það að flytja hluta erlendis. Af hverju var farið í þessa vegferð?“ spurði Hanna Katrín.

„Djúpt í árinni tekið hjá háttvirtum þingmanni“

Svandís sagði að þeirri spurningu hefði ítrekað verið svarað, en skimunarráð hefði bent á mikilvægi þess að byggja á evrópskum leiðbeiningum og tryggja ætti jafnari aðgang allra að skimunum fyrir legháls- og brjóstakrabbameini með því að fella þær undir opinbera þjónustu. Svandís sagði það hafa gengið vel.

„Það sem út af stendur eru álitamál sem lúta að úrvinnslu úr sýnunum sjálfum. Mér finnst því nokkuð djúpt í árinni tekið hjá háttvirtum þingmanni að tala um að hér hafi allt farið úrskeiðis og allir séu sammála um að allt hafi verið ómögulegt, vegna þess að það er ekki svo,“ sagði Svandís.