Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Brýnt að bregðast við undirmönnun í heilbrigðiskerfinu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skipaði á dögunum í landsráð í heilbrigðisþjónustu. Ráðinu er ætlað að eiga reglulega fundi um mönnun og menntun í heilbrigðiskerfinu og skila ráðherra tillögum að endurbótum.

Skipað var í ráðið eftir fjölmennt heilbrigðisþing þar sem margir ítrekuðu mikilvægi málefnisins. Margt bendi til þess að undirmönnun og menntun heilbrigðisstarfsfólks verði viðverandi vandi áfram.

Hlutverk ráðsins verður að gefa ráð fyrir ákvarðanatöku á sviði mönnunar og menntunar í heilbrigðisþjónustu. Þau skila árlega tillögum til ráðherra að aðgerðaáætlun um mönnun og menntun heilbrigðisstarfsfólks.

Ráðið verður auk þess samráðsvettvangur fyrir sjúklinga, sjúklingasamtök, fagfélög, aðra hagsmunaaðila og menntastofnanir um menntun stéttarinnar. Landsráði er ætlað að eiga reglulega fundi, eða að minnsta kosti 20 sinnum á ári, og er skipað til fjögurra ára.

„Við þurf­um að styrkja og efla mennt­un heil­brigðis­starfs­fólks, bæta starfs­um­hverfi þess, vinna að tryggri mönn­un heil­brigðis­kerf­is­ins og efla vís­indi og ný­sköp­un, og í ljósi heims­far­ald­urs og áhrifa far­ald­urs­ins þurf­um við mögu­lega að nálg­ast það mark­mið með nýj­um leiðum,“ sagði Svandís Svavarsdóttir þegar hún ávarpaði heilbrigðisþingið í nóvember.

Í landsráðið voru skipuð:

Bára Hildur Jóhannsdóttir, formaður, skipuð án tilnefningar.

Anna Björg Aradóttir, tilnefnd af embætti landlæknis.

Valdimar O. Hermannsson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Ragnheiður Bóasdóttir, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Svava Þorkelsdóttir, tilnefnd af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Gísli Kort Kristófersson, tilnefndur af heilbrigðisvísindasviði háskólasamfélagsins.

Ólafur Baldursson, tilnefndur af heilbrigðisstofnun.

Starsmenn ráðsins eru Dagmar Huld Matthíasdóttir og Ester Petra Gunnarsdóttir, sérfræðingar í heilbrigðisráðuneytinu.

Höfundur er meistaranemi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands, í starfsnámi á fréttastofu RÚV.