Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Bólusettir verða orðnir 200.000 í vikunni

01.06.2021 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Fimm greindust með kórónuveiruna innanlands í gær, einn utan sóttkvíar. Starfsmaður H&M í Kringlunni greindist smitaður í gær.

Allir starfsmenn verslunarinnar voru sendir í sjö daga sóttkví og verslunin er lokuð í dag á meðan unnið er að sótthreinsun. Aðrar verslanir Kringlunar eru opnar. Nokkrar smitsveiflur eru á milli daga. Í fyrradag greindist enginn en daginn þar áður greindust sex. Smitin í gær tengjast öll fyrri smitum með einum eða öðrum hætti, segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. 
Þá sé lítið að frétta af afhendingaáætlunum bóluefnis frá Jansen og Astrazeneca. 

„Nei það er lítið. Við erum ekki með neina afhendingaráætlun fram í tímann. Við vitum í rauninni sáralítið næstu vikurnar,“ segir Þórólfur.

Í þessari viku verður nóg að gera í bólusetningu. Þórólfur Guðnason vonast til þess að bólusettir fari yfir 200.000 manna markið.

„Jú mér finnst það nú líklegt. Það er í þessari viku eru töluvert yfir 20 þúsund manns, þ.a. eru margir að fá bólusetningu tvö sem eru að fá núna þessa dagana. Þetta gengur bara ágætlega. Ég held að þetta sé nokkurn veginn á áætlun þessi bólusetning hjá okkur. 

Hann segir að um miðjan mánuðinn sé stefnt að frekari tilslökunum við landamærin. Innanlandstilslakanir séu hins vegar ekki í kortunum á næstu dögum.

„Reglugerðin sem gildir um takmarkanir innanlands gildir til 16. júní. Allavega í mínum huga finnst mér engin ástæða til að vera að breyta því neitt,“ segir Þórólfur.

Hann kveðst þó vera bjartsýnn á að hægt verði að aflétta öllum samfélagslegum takmörkunum í lok mánaðar líkt og áætlun stjórnvalda kveður á um samhliða aukinni bólusetningu.

„já já, ég er ágætlega bjartsýnn á það en það hefur sýnt sig í gegnum þennan faraldur að við erum alltaf að fá einhverja óvænta hluti upp sem setja áætlanir aðeins úr skorðum, það kæmi mér svosem ekkert á óvart að það gerðist. Þetta hefur gengið vel núna og ég sé ekki nein ljón í veginum eins og staðan er en það getur auðvitað gerst eitthvað.