Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Varnarmálaráðherra Svíþjóðar krefur Dani um svör

31.05.2021 - 06:35
epa05415544 Swedish Defence Minister Peter Hultqvist speaks during the panel 'Preserving peace: NATO's role' as part of the Warsaw Summit Experts' Forum-NATO in Defence of Peace: 2016 and Beyond Forum on the margins of the NATO Summit
Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar. Mynd: EPA - PAP
Varnarmálaráðherra Svíþjóðar krefur dönsk stjórnvöld svara um hvort njósnað hafi verið um sænska ríkisborgara, stofnanir eða fyrirtæki í gegnum danska fjarskiptakapla.

Fréttamenn danska ríkisútvarpsins komust að því með samtölum við fjölda ónafngreindra en traustra heimildarmanna að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna njósnaði um árabil um háttsetta stjórnmála- og embættismenn, stofnanir og fyrirtæki í Evrópu í gegnum danska fjarskiptanetið með vitund og vilja leyniþjónustu danska hersins.

Þegar hefur verið greint frá því að á meðal þeirra sem njósnað var um eru Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, þáverandi utanríkisráðherra Þýskalands (og núverandi forseti) og Peer Steinbruck, þáverandi leiðtogi þýsku stjórnarandstöðunnar. Fleiri nöfn hafa ekki verið nefnd en fyrir liggur að einnig var njósnað um fólk og fyrirtæki í Svíþjóð, Noregi og Frakklandi hið minnsta eftir þessum leiðum.

Mjög alvarleg staða

Í viðtali við sænska ríkissjónvarpið, SVT, segist Hultqvist taka þá stöðu sem upp er komin mjög alvarlega og þegar hafa krafist upplýsinga um, hvort danska fjarskiptanetið hafi verið notað til að njósna um nafngreinda sænska ríkisborgara og fyrirtæki og annað sem varðar sænska hagsmuni.  Segist hann hafa haft samband við Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur um leið og hann fékk veður af því sem nú hefur verið flett ofan af, til að koma sjónarmiðum Svía á framfæri. Þá hafi sænsk stjórnvöld þgar sett sig í samband við yfirvöld í Noregi, Frakklandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum vegna málsins.

Sjá einnig: Danir hjálpuðu NSA að njósna um evrópska ráðamenn   

Í umfjöllun DR kemur fram að Bramsen hafi verið upplýst um njósnirnar í ágúst í fyrra. Þá upplýsti hún hins vegar vegar hvorki norska né sænska kollega sína um það sem þar kom fram. Hún upplýsti þá heldur ekki um innihald ítarlegrar skýrslu um málið þegar hún ræddi við þá eftir að DR greindi frá því í nóvember í fyrra, að NSA hefði að líkindum njósnað um bandamenn og vinaþjóðir Dana með aðstoð FE.

Þeir Hultqvist og Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Noregs, staðfestu þetta í samtali við DR. Þeir eru báðir óánægðir með hvort tveggja njósnirnar og ekki síður það, að þeir skuli þurfa að frétta af þeim í fjölmiðlum en ekki vera upplýstir um þær af dönskum yfirvöldum.  Fréttamaður SVT spurði Hultqvist hvort honum fyndist ekki að Bramsen hefði átt að upplýsa hann um málið um leið og hún fékk upplýsingar um það sjálf. „Þessa spurningu ættirðu að leggja fyrir Danina,“ svaraði Hultqvist þá. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV