Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Umræða um höfnun starfa verður að byggja á staðreyndum

31.05.2021 - 07:00
Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Friðrik Jónsson, formaður BHM, segir að umræða um að atvinnulausir hafni boðum um vinnu verði að byggjast á staðreyndum. Honum virðist sem ýjað sé að því að atvinnuleysisbætur séu vandamál og jafnvel atvinnulaust fólk líka.

Síðustu daga hefur verið nokkur umræða um að fólk á atvinnuleysisbótum hafni vinnu eftir að formaður Samtaka ferðaþjónustunnar sagði í Kastljósi að fyrirtækjum í ferðaþjónustu gangi illa að ráða til sín fólk af atvinnuleysisbótum.

Friðrik segir að Vinnumálastofnun hafi svarað því ágætlega að þetta virðist ekki vera stórt vandamál, hún fái reglulega tilkynningar sem séu skoðaðar. Best sé að byggja umræðuna á staðreyndum. „Fulltrúi ferðaþjónustunnar í ferðaþjónustunni talaði um að hafa staðfest nokkur dæmi. Eru þau tvö? Eru þau tuttugu? Eru þau 2.000?

Fólk á atvinnuleysisskrá má ekki hafna atvinnutilboði án þess að missa bótarétt tímabundið, nema það gefi gildar skýringar á ákvörðun sinni. Friðrik segir að það megi ræða og endurskoða reglur og kerfi, ekki sé óeðlilegt að velta því fyrir sér hvort að fólk þurfi að taka sér starf fjarri sínu þekkingarsviði eða hvort það fái nægan tíma til að hugsa málið.

Friðrik telur fleira búa að baki í umræðunni nú. „Það er svona verið að ýja að einhverju sem ég kann ekki alveg við. Það virðist liggja undir í þessari umræðu undanfarna daga eins og að atvinnuleysisbætur séu vandamál, séu þá of háar, og bótaþegar séu líka mögulega vandamál, að því að þeim líði svo vel á bótunum að þeir nenni ekki að fara að vinna. Það er ekki góður staður að vera á því það er ekki hægt að sanna það með neinum rökum eða tölfræði eða neinu slíku,“ segir Friðrik og bætir við að háskólamenntað fólk hafi orðið fyrir miklu tekjufalli við að missa vinnuna. Það fólk hafi mikla efnahagslega hvata til að komast aftur í vinnu.