Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Samskipti Sviss og ESB í uppnámi

31.05.2021 - 16:59
Mynd: EPA-EFE / Keystone
Samskipti Svisslendinga og Evrópusambandsins eru nú í uppnámi eftir að Svisslendingar slitu viðræðum sínum við sambandið eftirt 7 ára samningaþóf. Svisslendingar kusu á sínum tíma að fara sínar eigin leiðir í samningum við Brussel en það hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig.

7 ára þóf

“Alleingänger”, sá sem fer sínar eigin leiðir. Þótt Svisslendingar tali fjórar tungur, komst þýska hugtakið “Alleingänger” inn í þær allar fyrir nær þrjátíu árum, á Svarta sunnudeginum svokallaða í desember 1992, þegar svissneska þjóðin kaus að skella hurðinni á Íslendinga, Norðmenn og Liechtensteina frekar en að stofna með þeim Evrópska efnahags  svæðið. Af ótta við að afsala sér hluta af sjálfstæði sínu til Brussels og Evrópusambandsins ákváðu Svisslendingar þá frekar að fara sína eigin leið í samningum sínum við Evrópusambandið. Við tók þrautaganga sem staðið hefur í 30 ár, síðasti hluti hennar, tvíhliða samningaviðræður Svisslendinga við Evrópusambandið sigldu í strand í síðustu viku. Þrír úr svissnesku ríkisstjórninni boðuðu til blaðamannafundar og tjáðu þjóðinni að eftir 7 ára þóf væri tilgangslaust að halda viðræðunum áfram og sendu Úrsulu von der Leyen forseta framkvæmdaráðsins í Brussel bréf um það.  Og nú er sem sagt enn á ný allt strandað í samskiptum Svisslendinga og Evrópusambandsins. 

Fundað um kommur og punkta

Eftir að allar hugmyndir um bæði íslensk/norsku leiðina og enn síður um beina aðild Svisslendinga að Evrópusambandinu eru varla lengur í umræðunni í Sviss hvað þá heldur meira hefur Alpaþjóðin reitt sig á meira en 100 tvíhliða milliríkjasamninga við Evrópusambandið um öll þeirra samskipti. Sumir þessara samninga eru hálfrar aldar gamlir EFTA samningar og fylgja því ekki þeirri þróun sem orðið hefur síðan.  Því kom upp sú hugmynd fyrir meira en áratug að reyna að fella samskipti Sviss og Evrópusambandsins undir einn rammasamning svo ekki þyrfti stöðugt að vera að funda um kommur og punkta í Brussel. Það er sá samningur sem sigldi í strand í síðustu viku þegar ríkisstjórn Sviss tók þá djörfu ákvörðun að setja öll samskipti sín við Evrópusambandið í uppnám með því að gefast upp á þessu áralanga þjarki. 

Ríkisstjórnin sagði stopp

Ástæðurnar fyrir því að viðræður Sviss og Evrópusambandsins sigldu í strand að þessu sinni eru í raun þær sömu og ollu því að Svisslendingar í þjóðaratkvæðum gengu á snið við vilja ríkisstjórnar sinnar fyrir 30 árum, þegar hún taldi sig búna að finna ásættanlega lausn á samskiptum sínum við Evrópusambandið í formi Evrópska efnahagssvæðisins. Munurinn er aðeins sá að að þessu sinni sagði ríkisstjórnin stopp áður en hún tók á ný þá áhættu eins og fyrir 30 árum að fá falleinkunn hjá þjóðinni. 

“Falleinkunn hjá þjóðinni”, það er í raun ein skýringin á því hvers vegna Svisslendingar fara sínar eigin leiðir. “Einræði þegnanna” eins og stjórnmálamenn hér nefna uppbyggingu lýðræðisins í Sviss.

Umfangsmikil viðskipti

Alþjóðasamningar eins og samningar við Evrópusambandið fara sjálfkrafa í þjóðaratkvæði og ef eitthvað í þeim takmarkar þetta vald þegnanna þá má segja að þeir séu dauðir í fæðingu. Önnur skýring er að Sviss er sambandsríki. Þegar verið er að setja landinu framtíðarstefnu þurfa ríkin 26 sem það mynda og njóta mikils sjálfstæðis að vera nokkuð samstíga þrátt fyrir ólíka menningu, trú og tungur. Og þriðja skýringin er sú að Svisslendingar, sem sitja í Evrópu miðri, umkringdir Evrópusambandinu á alla bóga telja sig hafa mun meira vægi en til dæmis Íslendingar og Norðmenn í samningum sínum við Evrópusambandið. Í vöruskiptum eru þeir fjórði stærsti viðskiptavinur Evrópusambandsins, sá þriðji stærsti í þjónustu og annar stærsti í fjárfestingum. 

Að auki fer stórt hluti flutninga á milli norður og suður Evrópu í gegnum Sviss. Sviss og Evrópa eru því háð hvort öðru og Svisslendingar töldu sig því vera með nokkuð góð spil á hendi, en allt kom fyrir ekki og fáir telja að þessi nýja sögn þeirra fái andstæðinginn til að blikna. 

Velji bara bestu bitana

Evrópusambandið sakar Svisslendinga um að velja bara bestu bitana, eins og fullan aðgang að markaði, en hafna lagapakkanum sem því fylgir. En fyrir Svisslendinga gerði óhaggandi krafa Evrópusambandsins um útvíkkun á frjálsu flæði og búsetu, ekki aðeins vinnuafls, til Sviss, auk aðgangs að almannatryggingakerfi landsins útslagið um að hætta þessum viðræðum, auk ótta Svisslendinga við undirboð á launum, í landi sem býr við ein hæstu meðallaun í heimi og kröfu Evrópusambandsins um aukið vald Evrópudómstólsins í deilumálum og beina aðlögun að reglugerðum sambandsins. Til að reyna að hrinda af stað nýrri samningalotu boðar svissneska ríkisstjórnin þó að hún muni nú skoða hvað í lögum landsins megi aðlaga betur að reglugerðum Evrópusambandsins en þó á sínum forsendum en ekki þeirra. Auk þess leggur svissneska stjórnin til að Sviss falli ekki frá hundrað og fjörutíu milljarða króna þróunarstyrki til fátækustu meðlima Evrópusambandsins, sem Brusssel lítur á sem eins konar aðgangseyri að sínum innra markaði. 

Nýtt upphaf

Þó veit nú enginn hvert framhaldið verður, margir af tvíhliða samningum Sviss við Evrópusambandið eru úr sér gengnir eða að renna út og forkólfar í efnahagslífinu hér eru því á nálum. En forseti Sviss Guy Parmelan reyndi að hughreysta þá:

“Við erum í miðri Evrópu og eigum sameiginlegra hagsmuna að gæta. Ég lít því ekki á þetta sem endann á  samskiptum okkar heldur frekar sem nýtt upphaf af samvinnu sem ég vona að verði gæfurík”. 

Þótt þær vonir Svisslendinga að Brexit ævintýrið gerði Evrópusambandið kannski svolítið mýkra í viðmóti gagnvart þeim hafi ekki gengið eftir eru þeir þó ekki of áhyggjufullir. Þeir eru þess vel meðvitaðir að allar svörtu spárnar fyrir 30 árum þegar þeir höfnuðu því að ganga inn í Evrópska efnahagssvæðið hafa langt frá því ræst. Þvert á móti blómstrar svissneskur efnahagur, utan allra sambanda, sem aldrei fyrr. 

Pistill frá Jóni Björgvinssyni í Speglinum.

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV