Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hörð viðbrögð við indverska afbrigðinu í Kína

31.05.2021 - 11:51
Residents line up for coronavirus testing in the Liwan District in Guangzhou in southern China's Guangdong province on Wednesday May 26, 2021. The southern Chinese city of Guangzhou shut down a neighborhood and ordered its residents to stay home Saturday, May 29, for door-to-door coronavirus testing following an upsurge in infections that has rattled authorities. (AP Photo)
Íbúar í Guangzhou á leið í skimun. Mynd: AP
Víðtækar ráðstafanir eru í gildi í Guangdong-héraði í Kína til að koma í veg fyrir að afbrigði kórónuveirunnar sem fyrst greindist á Indlandi breiðist þar út. Gripið hefur verið til ferðatakmarkana og hundruðum flugferða aflýst.

Í Guangdong búa um hundrað milljónir. Ströngustu sóttvarnaráðstafanirnar til þessa eru í héraðshöfuðborginni Guangzhou norður af Hong Kong. Þar búa fimmtán milljónir. Frá og með deginum í dag má enginn fara út fyrir borgarmörkin nema hann geti sannað að hafa verið veirulaus síðustu þrjá sólarhringa. Hundruðum flugferða frá Baiyun-alþjóðaflugvellinum í borginni hefur verið aflýst. 

Nemendur hafa verið sendir heim úr skólanum, nema þeir sem eru á síðasta ári framhaldsskóla. Borgarbúum er skipað að halda sig sem mest heima. Mörg þúsund voru send í skimun fyrir veirunni í dag og til stendur að skima íbúa heilu hverfanna á næstu dögum. Eitt þeirra, Liwan, hefur verið lokað með öllu síðan á laugardag. 

Átján reyndust smitaðir af indverska afbrigði veirunnar í dag, að sögn heilbrigðisyfirvalda. Víðar í Guandong stendur til að grípa til ráðstafana, þar á meðal í borgunum Foshan og Shenzhen í nágrenni við héraðshöfuðborgina. Þær liggja báðar að Hong Kong. Þar greindust nokkur smit í síðustu viku.

Lífið hefur nokkurn veginn gengið sinn vanagang í Kína frá því um mitt síðasta sumar. Þegar vart hefur orðið við kórónuveirusmit hafa yfirvöld gripið til harðra aðgerða til að stöðva útbreiðslu þeirra. Fólk sem kemur til Kína frá útlöndum þarf að fara í langa sóttkví á hóteli, sem hefur verið lengd síðustu vikur vegna nýrra afbrigða veirunnar.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV